Sport

Tuttugu ár frá mögnuðu afreki Íslendings sem fréttamenn töldu vera frá Ísrael

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Umfjöllun í DV þann 24. nóvember 1997. Fréttamenn töldu í fyrstu að hinn óþekkti Íslendingur væri í raun Ísraelsmaður.
Umfjöllun í DV þann 24. nóvember 1997. Fréttamenn töldu í fyrstu að hinn óþekkti Íslendingur væri í raun Ísraelsmaður.
Tuttugu ár eru í dag liðin frá einu magnaðasta afreki Íslendings íþróttum, þegar 26 ára gamall Ólafsfirðingur að nafni Kristinn Björnsson komst fyrstur íslenskra skíðamanna á verðlaunapall í svigkeppni heimsbikarmóts. Afrekið vann Kristinn í Park City í Bandaríkjunum. 

Kristinn var í 17.-18. sæti eftir fyrri ferð sína en seinni ferðin varð söguleg. Ólafsfirðingurinn lét vaða og allt gekk upp. Hann var kominn í efsta sætið en enn áttu fjölmargir eftir að skíða niður. Margverðlaunaðir skíðakappar.

Svo fór að aðeins Austurríkismaðurinn Thomas Stangassinger náði samanlagt að skjótast fram úr Kristni og munaði tíu hundruðustu úr sekúndu. Í þriðja sæti hafnaði Christian Jagge frá Noregi á þremur hundruðustu á eftir Kristini.

Tími Kristins var besti tími dagsins og uppskar hann því silfurverðlaun.

Upptöku frá keppninni má sjá hér að neðan. 

 

Eðlilega fylltust Íslendingar stolti yfir árangri Kristins. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á íþróttastöðinni Sýn og var um spennuþrungna keppni að ræða. Kristinn var reyndur skíðamaður, hafði keppt á tvennum vetrarólympíuleikum en þarna skein stjarna hans loks svo skært að eftir var tekið, hérlendis sem erlendis.

Árangurinn dugði þó ekki til þess að Kristinn yrði kjörinn íþróttamaður ársins. Hann hafnaði í þriðja sæti á eftir Geir Sveinssyni handboltamanni og tugþrautarkappanum Jóni Arnari Magnússyni.


Kristinn brosti út að eyrum eftir að annað sætið var í höfn.
„Það er varla að maður trúi þessu enn. Þetta er mesta upplifun í mínu lífi. Ég hafði aldrei gert mér í hugarlund hvað svona árangur hefði í för með sér. Ég var umsetinn fréttamönnum eftir að úrslit lágu fyrir. Þetta er ógleymanleg lífreynsla. Mér gekk ágætlega í fyrri umferðinni en í þeirri síðari hafði ég mikið sjálfstraust sem hjálpaði mér mikið. Það verður örugglega erfitt að fylgja þessum árangri eftir. Ég er samt ákveðinn í að halda áfram á sömu braut. Nú veit ég að þetta er hægt og það skiptir öllu máli. Ég hef lengi stefnt að þessu en ég átti ekki von á því að það gerðist svona hratt. Þrotlausar æfingar eru farnar að skila árangri,“ sagði Kristinn í samtali við DV, skömmu eftir keppnina í Park City.

Kristinn sagðist hafa notið stundarinnar og verið spurður margra spurninga innan um stórstjörnurnar á blaðamannafundi að keppni lokinni.

„Það kom flatt upp á alla að Íslendingur hreppti annað sætið. Það þekkti mig enginn og Stangassinger, sem vann gullið, þekkti mig ekkert og hafði aldrei séð mig áður. Fréttamenn héldu í fyrstu að ég væri frá Ísrael en ég var fljótur að leiðrétta þá. Þessi árangur minn gefur mér betra rásnúmer fyrir næstu keppni sem haldin verður á ítalíu um miðjan næsta mánuð,” sagði Kristinn.

Að neðan má sjá tilþrif Kristins af Facebook-síðu RÚV. Rætt er við Kristinn í seinni hlutanum þar sem hann svarar spurningum fréttamanns á norsku.





Löngum hefur verið gert grín að því að Kristinn hafi verið skíðakappinn sídettandi. Sjálfur hefur hinn hægláti og hógværi Ólafsfirðingur bent á það að hann hefði engu að tapa. Hann gæfi allt í þetta.

Skapti Hallgrímsson, íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, skrifaði um þjóðareignina Kristinn í desember 1997, nokkrum vikum eftir árangurinn í Park City. Gefum Skapta orðið.

„Í of langan tíma hafa of margir landsmenn talað um íslenska skíðamenn í hálfkæringi. Rifjað er upp þegar þeir gleymdu skíðunum ­ sem þó gleymdust alls ekki, vel að merkja, á leiðinni á Ólympíuleikana í Calgary 1988. Eða þegar íslenski skíðamaðurinn á Ólympíuleikunum í Albertville 1992 renndi sér út úr brautinni, lenti á starfsmanni og saman runnu þeir langan veg niður brekkuna, utan brautar. Þá hlógu margir hér á Fróni. En skyldu menn munu hver þessi íslenski skíðamaður var? Já, já, það var enginn annar en Kristinn Björnsson. En þá var hann ekki þjóðareign. Hafði ekki náð þeirri frægð og þeim frama sem nú er,“ skrifaði Skapti í Morgunblaðið.

Forsíða DV þann 24. nóvember 1997.
Minntist Skapti á þá staðreynd að oft væri stutt á milli hláturs og gráturs í íþróttum. Í því samhengi má minnast þess að um tíu ár eru síðan karlalandsliðið í knattspyrnu steinlá 3-0 gegn Liechtenstein í undankeppni EM 2008. Nú eru fótboltastrákarnir okkar á leiðinni á HM í Rússlandi eftir ótrúlega velgengni undanfarin ár.

Kristinn tók alltaf áhættu á sínum ferli. Skapti, sem búsettur er norðan heiða, tók viðtal við Kristinn árið 1985, þá keppandi í tólf ára flokki, sem þótti líklegur til sigurs í svigkeppni Andrésar Andar leikanna á Akureyri.

„Margir töldu Kristin sigurstranglegastan í sviginu en hann varð fyrir því óhappi að detta í fyrri ferðinni ­ missti við það mikinn tíma og þar með voru sigurmöguleikar hans úr sögunni. Til að sanna ágæti sitt keyrði hann síðan snilldarlega í síðari ferðinni og náði þá bestum brautartíma.“

Kristinn jafnaði svo sinn besta árangur þegar hann náði öðru sæti á heimsbikarmóti í janúar 1998 í Austurríki. Hann keppti á fernum vetrarólympíuleikum fyrir Íslands hönd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×