Fótbolti

Robinho í níu ára fangelsi fyrir hópnauðgun

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Robinho í leik í Kína.
Robinho í leik í Kína. vísir/getty
Brasilíski fótboltamaðurinn Robinho var í dag dæmdur í níu ára fangelsi á Ítalíu fyrir hópnauðgun sem hann var hluti af fyrir fjórum árum.

Sky Sports á Ítalíu segir t.a.m. frá þessu á Twitter-síðu sinni en ítalskir miðlar keppast nú við að greina frá málinu.

Ítalska íþróttablaðið Gazzetta dello Sport segir að Robinho var einn af fimm mönnum sem voru sakfelldir fyrir að nauðga 22 ára gamalli albanskri stúlku á skemmtistað í Mílanó 22. janúar 2013.

Robinho var þá leikmaður AC Milan en þessi 33 ára gamli sóknarmaður spilar í dag með Atletico Minero í heimalandinu.

Hann varð dýrasti leikmaður í sögu Manchester City þegar að félagið keypti hann frá Real Madrid fyrir 32 milljónir punda en hann entist aðeins 16 mánuði á Englandi áður en hann fór aftur heim til Santos.

Hann gekk svo í raðir AC Milan árið 2010 og spilaði þar við góðan orðstír innan vallar í fimm ár áður en hann fór aftur til Santos, svo til Kína og þaðan heim árið 2016.

Robinho á 100 leiki og 28 mörk að baki fyrir brasilíska landsliðið.

Fréttin var uppfærð kl. 18.09




Fleiri fréttir

Sjá meira


×