Íslenski boltinn

Logi Ólafs: Minni félögin finna leikmenn og ala þá upp og svo koma þau stóru og taka þá

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Logi Ólafsson þarf að finna sér annan framherja.
Logi Ólafsson þarf að finna sér annan framherja. vísir/stefán
Logi Ólafsson, þjálfari Pepsi-deildarliðs Víkings, svo gott sem staðfesti frétt Vísis frá því í byrjun mánaðar um að framherjinn Geoffrey Castillion væri á leið í FH þegar að hann ræddi við Akraborgina í gær.

Þjálfarinn skemmtilegi var í viðtali um komu Sölva Geirs Ottesen til Víkings en var spurður út málefni Castillion sem skoraði ellefu mörk í 16 leikjum fyrir Fossvogsliðið í sumar.

„Hann er með útrunninn samning við okkur og eftir því sem mér skilst er hann að fara til Hafnarfjarðar [FH, innsk. blm],“ segir Logi.

Castillion var einn besti framherji Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð en hann kom til Íslands til að ná aftur fótfestu á sínum ferli og fór á kostum þrátt fyrir að meiðast í þriðju umferð.

Logi er eðlilega sár að vera að missa svona góðan leikmann en þetta er eitthvað sem minni félögin þurfa oft að glíma við.

„Þetta er svona gömul saga og ný að þessi minni félög finna mennina og ala þá upp og svo koma hin [stærri félögin, innsk. blm] og kaupa þá - eða taka þá öllu heldur,“ segir Logi en Castillion var samningslaus og frjáls ferða sinna.

„Víkingur fær ekki neitt fyrir það en svona er þetta. Hann var með lausan samning og var að leita fyrir sér.“

„Svona er þetta bara. Menn bíta á agnið þegar verið er að bjóða upp á að komast í Evrópukeppni og það ætla allir að berjast um titla. Það eru allar þessar setningar sem koma. Við reyndum en ég held að hann sé að fara í Hafnarfjörð, án þess að ég viti það,“ segir Logi Ólafsson.

Viðtalið við Loga má heyra hér að neðan en umræðan um Castillion hefst á 4:30.


Tengdar fréttir

Sölvi aftur orðinn Víkingur

Sölvi Geir Ottesen er genginn í raðir Víkings R. og hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið.

Castillion á leið til FH

Samkvæmt heimildum Vísis er Geoffrey Castillion, framherji Víkings R., á leið til FH.

Vil sýna að ég get enn spilað

Sölvi Geir Ottesen, fyrrverandi landsliðsmaður í knattspyrnu, er kominn heim og ætlar að ljúka ferlinum með því að spila í Pepsi-deildinni. Hann segist sáttur við atvinnumannsferilinn en hann eigi enn nóg inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×