Erlent

Trump dregur fæðingarvottorð Obama enn í efa á bak við tjöldin

Kjartan Kjartansson skrifar
Á bak við tjöldin heldur Trump fram samsæriskenningum við ráðgjafa og þingmenn.
Á bak við tjöldin heldur Trump fram samsæriskenningum við ráðgjafa og þingmenn. Vísir/AFP
Ráðgjafar Donalds Trump Bandaríkjaforseta segja að hann haldi áfram ýmsum samsæriskenningum á lofti sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Auk þess að segja fólki að alræmd upptaka þar sem hann heyrist gorta sig af kynferðisofbeldi sé í raun ekki af honum er Trump sagður halda áfram að vefengja fæðingarvottorð Baracks Obama, forvera síns í embætti.

Trump komst upphaflega í sviðsljósið á stjórnmálasviðinu þegar hann varð einn mest áberandi talsmaður samsæriskenningar um að Obama væri í raun ekki fæddur í Bandaríkjunum og því ekki lögmætur forseti. Þær kenningar héldu áfram jafnvel eftir að Obama birti fæðingarvottorð sitt.

Það var ekki fyrr en tiltölulega seint í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar í fyrra sem Trump dró aðdróttanir sínar um uppruna forsetans til baka.

Nú segir New York Times hins vegar að undanfarna mánuði hafi Trump haldið áfram að lýsa efasemdum um fæðingarvottorð Obama í einkasamtölum. Hann hefur einnig endurtekið stoðlausar fullyrðingar sínar um að hann hafi aðeins hlotið færri atkvæði í heildina í forsetakosningunum en Hillary Clinton vegna þess að milljónir manna hefðu greitt atkvæði ólöglega.

Obama lagði fram fæðingarvottorð sitt á sínum tíma til að friða samsæriskenningasinna. Það bar ekki tilætlaðan árangur.Vísir/Getty
Reyna að stýra forsetanum frá samsæriskenningum

Blaðið hefur þetta eftir bæði ráðgjöfum Trump og þingmönnum repúblikana. Áður hafði það greint frá því að Trump væri farinn að segja fólki að upptaka þáttarins Access Hollywood með digurbarkalegum fullyrðingum um kynferðislega áreitni í garð kvenna sem skaut upp kollinum í kosningabaráttunni í fyrra sé ekki af honum í raun og veru.

Á upptökunni heyrist Trump meðal annars segja þáttastjórnandanum Billy Bush að hann geti gert hvað sem er við konur í krafti fræðgar sinnar, þar á meðal að „grípa í píkuna á þeim“. Trump gekkst við upptökunni á sínum tíma. Access Hollywood svaraði forsetanum sérstaklega og ítrekaði að upptakan væri sannarlega af honum.

New York Times segir að lygarnar séu aðeins hluti af ævilöngum vana Trump að búa til sinn eigin raunveruleika. Svo oft hafi Trump farið inn á brautir framandlegra samsæriskenninga undanfarið að ráðgjafar hans hafi fengið vinveitta þingmenn til að spyrja forsetann spurninga á fundum til að stýra honum inn á rétta braut.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×