Erlent

Dönsk hjón keyptu nýfætt barn í Póllandi á 750 evrur

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla komst á sporið eftir að ábending barst frá pólskum yfirvöldum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Lögregla komst á sporið eftir að ábending barst frá pólskum yfirvöldum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/Getty
Dönsk hjón keyptu nýfæddan dreng í Póllandi án aðkomu ættleiðingarþjónustu árið 2014 og lugu að yfirvöldum til að barnið fengi danska kennitölu. Hjónin greiddu móður drengsins alls 750 evrur fyrir drenginn, eða um 90 þúsund krónur á núvirði.

Danska ríkisútvarpið greinir frá málinu í dag en hjónin viðurkenndu gjörðir sínar fyrir dómara í Sønderborg.

Konan segir að hún hafi auglýst á netinu eftir konu sem sæi ekki fram á að geta séð fyrir barninu sínu og væri reiðubúin að gefa það til ættleiðingar. Pólsk kona svaraði auglýsingunni, en sú var barnshafandi og krafðist fyrst 100 þúsund danskra króna fyrir drenginn, um 1,6 milljónir króna. Dönsku hjónin vildu hins vegar ekki samþykkja að greiða slíka fjárhæð og samþykktu loks að greiða móðurinni 750 evrur.

Fengu fæðingarvottorð í Hollandi

Þegar barnið var komið í heiminn ferðuðust hjónin frá Danmörku til Póllands til að sækja það. Maðurinn á fjölskyldu í Hollandi og greindu þau dönskum yfirvöldum frá því að barnið hafi fæðst í Hollandi í einni heimsókn þeirra þangað. Parinu tókst að fá hollensk yfirvöld til að gefa út fæðingarvottorð og með það í höndunum tókst þeim að fá danska kennitölu fyrir drenginn.

Lögregla komst á sporið eftir að ábending barst frá pólskum yfirvöldum, en líffræðileg móðir drengsins hafði greint lögreglu þar í landi frá málinu.

Barnið er nú þriggja ára gamalt og býr enn hjá dönsku hjónunum sem búa á Norður-Jótlandi. Í dómsgöngum kemur fram að barnið hafi þrifist vel hjá hjónunum.

Skilorðsbundið fangelsi

Konan viðurkenndi fyrir dómara að hafa gefið falskar upplýsingar til yfirvalda um barnið til að það fengi danska kennitölu. Saksóknarar kröfðust þess að hjónin yrðu dæmd fyrir brot gegn lögum um ættleiðingar, en þeim ákærulið var vísað frá dómi.

Dómurinn sakfelldi hjónin hins vegar fyrir að hafa gefið yfirvöldum falskar upplýsingar um barnið og voru þau dæmd í tuttugu daga skilorðsbundið fangelsi og fjörutíu tíma samfélagsþjónustu. Ekki er útilokað að ákæruvaldið muni áfrýja dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×