Íslenski boltinn

Anton Ari missti af meistaraferð Vals vegna meiðsla sem voru fyrst talin alvarleg

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Anton Ari Einarsson er ekki eins meiddur og talið var fyrst.
Anton Ari Einarsson er ekki eins meiddur og talið var fyrst. vísir/stefán
Anton Ari Einarsson, markvörður Íslandsmeistara Vals í Pepsi-deild karla í fótbolta, meiddist, að því fyrst var talið illa, á ökkla í fótbolta á dögunum.

Fyrst var haldið að um fótbrot væri að ræða og að hann yrði ekki klár í bátana fyrr en seint á næsta ári en betur fór en á horfðist.

Anton Ari var settur rakleiðis í gifs sem margborgaði sig því hann er byrjaður að hreyfa sig aftur. Hann er þó ekki alveg sloppinn en líklega er um tognun að ræða.

Ökklinn er frekar bólginn og á enn eftir að mynda hann þegar að bólgan hjaðnar til að sjá hvort einhver skaði sé á liðböndum Antons. Ljóst er að hann verður ekki næstum því eins lengi frá og fyrst var talið sem eru frábærar fréttir fyrir Valsmenn.

Óhappið átti sér stað degi áður en Valsmenn fór til Búdapest í Ungverjalandi til að fagna Íslandsmeistaratitlinum en Anton missti af ferðinni þar sem hann var einn heima í gifsi.

Anton Ari var besti markvörður Pepsi-deildarinnar í sumar en hann fékk aðeins á sig 20 mörk í 22 leikjum og hélt sjö sinnum hreinu.

Þessi 23 ára gamli Mosfellingur kom til Vals frá Aftureldingu árið 2015 og hirti aðalmarkvarðarstöðuna af Ingvari Þór Kale eftir tvær umferðir á síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×