Erlent

Ákærð fyrir að baula á forsetafrú Simbabve

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Hin ákærðu eru sögð hafa baulað á Grace Mugabe og sagst hata allt sem hún stæði fyrir.  Þau eru sögð grafa undan valdi forseta.
Hin ákærðu eru sögð hafa baulað á Grace Mugabe og sagst hata allt sem hún stæði fyrir. Þau eru sögð grafa undan valdi forseta. Nordicphotos/AFP
Fjögur voru í gær ákærð fyrir að baula á Grace Mugabe, forsetafrú Simbabve. Atvikið átti sér stað þegar hún flutti ræðu á fundi ZANU-PF, flokks Roberts Mugabe, forseta og eiginmanns hennar.

Í frétt simbabveska blaðsins The Herald segir að hin ákærðu hafi verið handtekin eftir fundinn á laugardag í borginni Bulawayo. Er þeim gefið að sök að hafa reynt að grafa undan valdi forsetans en fjölmiðlar höfðu ekki greint frá því í gær hvort hin ákærðu játuðu sekt.

Talið er að fjórmenningarnir séu stuðningsmenn Emmerson Mnangagwa, fyrrverandi varaforseta sem sækist eftir því að taka við forsetaembættinu þegar Mugabe, nú 93 ára, lætur af störfum. Mnangagwa þessi var rekinn fyrr í vikunni og var ástæðan sögð ótrygglyndi. Hann er nú flúinn til Suður-Afríku.

Hart er barist um að verða eftirmaður Mugabes og er forsetafrúin ein þeirra sem sækjast eftir stólnum. Greindi BBC frá því í gær að hún hafi raunar verið einn helsti hvatamaður þess að Mnangagwa yrði rekinn. Hefur hún meðal annars sagt að Mnangagwa væri „naðra sem þyrfti að slá í höfuðið“.

Nú þegar Mnangagwa hefur verið rekinn þykir Grace Mugabe einna líklegust til að verða næsti forseti Afríkuríkisins. 


Tengdar fréttir

Ótryggur varaforseti Simbabve rekinn

Robert Mugabe forseti er sagður hafa tekið ákvörðunina en BBC greinir frá því að hún auki líkurnar á því að eiginkona hans, Grace Mugabe, taki við af forsetanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×