Lífið

Gefur ferilinn ekki upp á bátinn

Kristjana Guðbrandsdóttir skrifar
Eliza Reid forsetafrú er á leið í hundrað ára afmæli ömmu sinnar í Ottawa í Kanada. Börnin fara með enda er það ekki á hverjum degi sem amma verður hundrað ára. Guðni situr hins vegar að sjálfsögðu eftir heima að glíma við stjórnarmyndun.

Hún fer reglulega í heimsókn til skyldmenna sinna í Kanada og segir frá því að það sé stutt síðan amma hennar flutti á elliheimili. „Það var bara núna í september. Hún er alveg hreint mögnuð,“ segir Eliza og býður upp á kaffi í bókhlöðunni á Bessastöðum.

Sterkar kvenfyrirmyndir

Eliza er alin upp á bóndabæ í Ashton sem er um fjörutíu kílómetra suðvestur af Ottawa. Faðir hennar kennir enskar bókmenntir og móðir hennar er menntuð í sálfræði og samfélagsfræði.

Þau hafa stundað áhugabúskap um árabil og á æskuheimili Elizu eru reyndar íslenskar kindur og hænur meðal annarra dýra. Eliza á tvo yngri bræður. Annar er rithöfundur og bók eftir hann mun koma út í íslenskri þýðingu eftir áramót. Hinn er verkfræðingur.

Hún býr að sterkum kvenfyrirmyndum í fjölskyldu sinni. „Móður- og föðursystur mínar eru bæði ógiftar og óhefðbundnar. Amma vann sem hjúkrunarkona í seinni heimsstyrjöldinni, var meðal annars send til Ítalíu þegar hart var barist þar. Ég er alin upp við ákveðin gildi, það var til dæmis aldrei sagt við mig: „Þegar þú giftist?…“ Ég var ekki með hugann við það að giftast. Hugsaði meira um námið og ferilinn fram undan en að hitta einhvern sem ég myndi eyða ævinni með,“ segir Eliza.

Norðurljós og fuglalíf

En svo gerðist það. Eliza hitti Guðna þar sem þau stunduðu bæði nám við Oxford á Englandi. „Ég er með BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá háskólanum í Toronto. Ég flutti 22 ára til Bretlands til að fara í meistaranám við Oxford-háskóla í nútímasögu. Þar hitti ég Guðna og það varð ekki aftur snúið.“

Þau fluttu til Íslands árið 2003. „Og nú er ég allt í einu margra barna móðir,“ segir hún og hlær og segir að yngri Eliza hefði líklega ekki gert sér það í hugarlund.

Börn Guðna og Elizu eru fjögur, Duncan Tind­ur (f. 2007), Don­ald Gunn­ar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Mar­grét (f. 2013). Að auki á Guðni dótt­ur­ina Rut (f. 1994) með fyrri eig­in­konu sinni, Elínu Haraldsdóttur.

„Börnin hafa aðlagast vel í nýjum skóla og eignast nýja vini. Það er margt gott við að búa hér. Fuglalífið er einstakt og norðurljósin lýsa upp himininn. Kyrrðin hér er mikil en þó ekki langt að fara í mannlífið,“ segir Eliza.

Þurfti að endurskoða ýmislegt

Eliza vann töluvert við ritstörf eftir að hún flutti til Íslands. Hún skrifaði greinar fyrir Iceland Review og Grapevine og ritstýrði um tíma flugtímariti Icelandair.

Þá stofnaði hún Iceland Writers Retreat, alþjóðlega vinnusmiðju fyrir rithöfunda. Verkefni sem henni þykir vænt um og hefur ekki sagt skilið við.

„Þótt ég sé forsetafrú þá hef ég ekki alveg sagt skilið við fyrri störf. Árið er 2017 og þó að maðurinn minn hafi fengið nýtt starf þá gef ég ekki allt upp á bátinn.“

Hún er verndari nokkurra samtaka og hefur haft nóg fyrir stafni síðan fjölskyldan fluttist búferlum af Seltjarnarnesi á Álftanesið. „Ég þurfti auðvitað að endurskoða ýmislegt. Sumum verkefnum gat ég ekki haldið áfram að sinna. Ég get ekki starfað sem launþegi hjá einkafyrirtækjum. Lesið yfir ársskýrslur og fleira. En ég vildi halda áfram að vinna við Iceland Writers Retreat. Það verkefni er hugarfóstur mitt. Það byggir á bókmenntaarfleifð Íslands og mér finnst það eiga vel við að kynna verkefnið á erlendum vettvangi,“ segir hún.





c
80 þúsund á svæði á stærð við Álftanes

Eliza fór í haust með UN Women á Íslandi og heimsótti Zaatari-flóttamannabúðirnar í Jórdaníu. „Við heimsóttum griðastaði sem UN Women hafa verið að byggja upp í flóttamannabúðunum. Mikilvægt starf sem þarf að vernda og efla í ljósi stöðu kvenna á flótta,“ segir Eliza.

„Þetta eru ótrúlega fjölmennar búðir á fremur litlu landsvæði. Áttatíu þúsund Sýrlendingar sem flúið hafa stríð í heimalandinu búa á svæði sem ekki er stærra en Álftanesið. Og fólksstraumurinn er slíkur að búðirnar eru orðnar fjórða fjölmennasta borg í Jórdaníu,“ segir Eliza.

Hún segir fjölmargar mikilvægar ástæður að baki því að UN Women leggja áherslu á griðastaði í búðunum. Ein af hverjum þremur konum í búðunum hafi verið gift á barnsaldri og njóti þannig minni tækifæra. Þá séu mjög margar kvennanna fyrirvinna fjölskyldu sinnar eftir missi maka og atvinnutækifærin því miður fá í Zaatari-búðunum.

„Konur og börn eru langstærstur hluti íbúa í búðunum. Þær hafa orðið fyrir áföllum og missi og glíma við afleiðingar þess. Þetta eru ekkjur, einstæðar mæður með mörg börn. Mjög margar hafa orðið fyrir ofbeldi,“ segir Eliza. „Og ýmsar hættur steðja að, svo sem barnahjónabönd sem fjölgar í flóttamannabúðum. UN Women starfrækja griðastaði í búðunum þar sem konur og stúlkur eru öruggar. Þær geta sett börnin í gæslu, fengið menntun og hjálp. Mestu máli skiptir fræðsla um hversu skaðlegt það er að gifta ungar stúlkur eða jafnvel börn eldri mönnum.“





Eliza Reid er á leið í hundrað ára afmæli ömmu sinnar. Hún býr að sterkum kvenfyrirmyndum í fjölskyldu sinni og er umhugað um jafnrétti. Fréttablaðið/Stefán
Getum gert betur

„Ég tók viðtal við unga stúlku sem á sér stóra drauma. Hún stundar nám í ensku og hana dreymir um að verða túlkur. Þarna eru ungar konur sem eru að læra á tölvur, saumaskap og margt fleira. Þarna geta konur líka hist og átt stundir saman. Talað saman. Kvennasamstaðan skiptir mjög miklu máli. Það þarf að fjölga úrræðum á þessum griðastöðum og styrkja þá. Það var ein af ástæðum þess að ég slóst í för með UN Women þangað, “ segir Eliza en samtökin segja hundruð kvenna á biðlista eftir þjónustu griðastaðanna.

„Þetta er í fyrsta skipti sem ég heimsæki flóttamannabúðir. Það sem kom mér mest á óvart var umfangið. Þarna fæðast 80 börn á viku. Þarna eru skólar, vinnustaðir og aðalgata þar sem er hægt að kaupa ýmislegt. En þetta eru gámar staðsettir í eyðimörk. Þarna er ekki gott aðgengi að vatni og rafmagni. Fólk hélt að það væri að koma til nokkurra vikna dvalar en er svo búið að vera þarna í fimm ár. Ég komst fljótt að því að auðvitað vilja þau öll fara heim. Þau eru sárafá sem fara til Evrópu úr búðunum. Íbúar í búðunum taka ekki einu sinni eftir því þegar fjölskyldur hverfa úr hópnum.“

Fólk taki afstöðu

Eliza hefur brennandi áhuga á jafnréttismálum og skýra sýn í þeim efnum. „Ég hef alltaf talið það mikilvægt að konur fái jafngóð tækifæri í þessu lífi og karlar.

Við erum öll þegnar í þessari veröld, karlar og konur, og tækifærin eiga að vera jöfn. Ég reyni að kenna börnum mínum um jafnréttismál og vona að ég hafi náð einhverjum árangri. Strákarnir mínir taka t.d. eftir því þegar þeir fá nýtt legódót að í því eru langoftast legókarlar en sjaldan konur og það særir réttlætiskenndina.

Um daginn þegar við vorum að borða kvöldmat voru elstu strákarnir mínir að karpa um hvor þeirra væri betri femínisti. Þá varð ég mjög stolt,“ segir Eliza. „Uppeldið hefur skilað einhverju. Mér finnst líka nauðsynlegt að fólk viti að það hefur rödd og allar raddir skipta máli. Ef fólk er óánægt á það að taka afstöðu, láta í sér heyra, skrifa fyrirtækjum eða stofnunum. Segja skoðun sína á opinberum vettvangi. Ég reyni líka að vera rödd í mínu starfi, enda er ég meira í sviðsljósinu núna.“





Umfangið kom Elizu á óvart, áttatíu þúsund dvelja á svæði sem er ekki stærra en Álftanes. Mynd/UN Women
Karlmenn með í liði

Konum fækkaði umtalsvert á þingi í nýafstöðnum kosningum. Hvað finnst henni um það og hver er leiðin fram á við? „Þetta er afturför. Það er alveg ljóst. En ég held að það sé mjög mikilvægt að hafa karlmenn með okkur konum í liði. Við getum ekki ýtt þeim út á jaðarinn, þeir þurfa að taka þátt í að koma á jafnrétti. Við erum mjög framarlega á heimsvísu hvað varðar jafnréttismál en getum alltaf gert betur.“

Sterkar raddir með hreim

Hún segist sannfærð um að stjórnarmyndun fari vel. „Guðni er sérfræðingur í sögu stjórnmála á Íslandi og þekkir þetta vel. Hann hefur góða yfirsýn og rólega lund. Tekur bara eitt skref í einu. Þetta er í öruggum höndum frá mínum sjónarhóli séð. Við þurfum að læra að vinna saman, finna það sem sameinar frekar en það sem sundrar. Það er nefnilega mjög margt sem sameinar.“ segir Eliza. „Það er allajafna gott fólk sem tekur þátt í íslenskum stjórnmálum. Fólk sem leggur sitt af mörkum til að bæta samfélagið okkar.“

Henni eru að sjálfsögðu málefni innflytjenda afar hugleikin. „Það eru forréttindi að fá að vera í þessu hlutverki. Ég get valið mér verkefni og hef tækifæri til að vekja athygli á brýnum málum með því að ræða um þau. Taka þátt í málefnastarfi. Ég geri það sem kona og auðvitað líka  sem innflytjandi. Ég tala með hreim og ber orð fram rangt. Ég er ekki með sama orðaforða og aðrir Íslendingar sem eru fæddir hér og uppaldir. En það er mikilvægt að við sem tölum með hreim og beygjum stundum vitlaust og svona, höfum samt sterka rödd. Við þurfum að hvetja innflytjendur til að læra tungumálið,“ segir Eliza.

Sátt við lífið

Helsta áhugamál Elizu eru bókmenntir. Hún hefur haft nóg að lesa upp á síðkastið því hún er í valnefnd fyrir kanadísk bókmenntaverðlaun, BC National Award for Canadian Non-Fiction. Og sjálfri finnst henni gaman að skrifa. Ætlar hún að skrifa bók á Bessastöðum? „Ég hef aldrei skrifað bók og get heldur ekki sagt að ég gangi með bók í maganum. Jú, mér finnst gaman að skrifa en er nú samt ekki að skrifa skáldsögu. Ég geri það ekki nema ég fái góða hugmynd. Kannski gerist það á morgun? Hver veit? En ég er hins vegar mjög sátt við líf mitt hér.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×