Fótbolti

Arnór Ingvi hugsar sér til hreyfings

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Arnór Ingvi bjóst við fleiri tækifærum þegar hann skrifaði undir hjá AEK í sumar.
Arnór Ingvi bjóst við fleiri tækifærum þegar hann skrifaði undir hjá AEK í sumar. mynd/aek
Arnór Ingvi Traustason, leikmaður íslenska karlalandsliðsins í fótbolta segir í samtali við Fótbolti.net að staða sín hjá AEK í Grikklandi sé ekki góð og því þurfi hann að hugsa sér til hreyfings í janúar þegar að félagsskiptaglugginn opnar á ný.  

Frá því að hann gekk til liðs við AEK síðasta sumar hefur Arnór fengið fá tækifæri og virðist litlu skipta hvernig hann stendur sig þegar tækifærin koma.

"Það er sama hvað ég geri, það er ekkert nógu gott. Ég átti glimrandi leik um daginn og var hrósað af öllu starfsliðinu og stjórn félagsins. Svo kemur að næsta leik og ég er ekki í hóp. Mér finnst spes hvernig staðið er að þessu," sagði Arnór við Fótbolta.net eftir æfingu landsliðsins í Katar fyrr í dag.

Arnór segir að hugur sinn leiti því annað enda þurfi hann að spila til þess að halda sæti sínu í landsliðinu fyrir HM í Rússlandi næsta sumar.

Aðspurður vildi Arnór ekki gefa upp hvert líklegt sé að hann fari í komandi janúarglugga og sagði að þetta væri allt á byrjunarstigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×