Erlent

Rajoy mætir til Katalóníu

Atli Ísleifsson skrifar
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar.
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar. Vísir/afp
Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, mun í dag heimsækja Katalóníu í fyrsta sinn frá því að stjórn hans samþykkti að svipta héraðinu sjálfstjórn í kjölfar sjálfstæðisyfirlýsingar héraðsþingsins fyrir tveimur vikum.

Rajoy hefur boðað til kosninga til héraðsþingsins í Katalóníu í næsta mánuði og mun koma fram á kosningafundi mið-hægri flokks síns, Þjóðarflokksins Partido Popular.

Áætlað er að um 750 þúsund manns hafi komið saman í Barcelona í gær til að mótmæla því að margir leiðtogar Katalóna hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna sjálfstæðisyfirlýsingarinnar sem stjórnlagadómstóll Spánar hefur dæmt ógilda.

Deilur landsstjórnar og Katalóna má rekja til ákvörðunar héraðsstjórnarinnar á sínum tíma að boða til þjóðaratkvæðisgreiðslu um sjálfstæði héraðsins sem fram fór í byrjun októbermánaðar.

Fulltrúar katalónskra yfirvalda sögðu 92 prósent kjósenda hafa greitt atkvæði með sjálfstæði en þátttakan var einungis um 43 prósent. Sambandssinnar sniðgengu atkvæðagreiðsluna í stórum stíl enda höfðu spænskir dómstólar dæmt þjóðaratkvæðagreiðsluna ólöglega.

Spánarstjórn leysti í kjölfarið upp héraðsstjórn Katalóníu, tók yfir stjórn héraðsins og boðaði til nýrra kosninga þann 21. desember.

Carles Puigdemont, fyrrverandi forseti katalónsku héraðsstjórarinnar, hefur hafist við í Belgíu síðustu vikur, en katalónskir ráðherrar hafa margir verið ákærðir fyrir uppreisn og misnotkun á almannafé.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×