Fótbolti

Xhaka segir Norður-Írum að hætta að væla

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Svisslendingar eru í fínum málum eftir 1-0 útisigur á Norður-Írlandi í fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2018.

Sigurmarkið kom úr vægast sagt umdeildri vítaspyrnu eftir tæplega klukkutíma leik. Dómari leiksins, Ovidiu Hategan, mat það sem svo að skotið hefði verið í hendi Corry Evans, en í endursýningu sést að þetta var einfaldlega rangur dómur.

Landsliðsmenn Norður-Írlands eru skiljanlega ósáttir með vítaspyrnudóminn og hafa látið í ljós óanægju sína í viðtölum síðustu daga.

Granit Xhaka, miðjumaður Arsenal og svissneska landsliðsins, skilur hins vegar ekki af hverju þeir láta ekki staðar numið.

„Ég veit ekki af hverju þetta er svona stórt mál eða af hverju þetta er svona mikið rætt. Norður-Írar verða að hætta þessu væli. Ég tel að við séum mun betra lið og við munum sýna það á heimavelli í seinni leik umpsilsins þegar við tryggjum sæti okkar á HM í Rússlandi," sagði Xhaka í viðtali.

Þá sagði Xhaka að það hefðu verið nokkrar ákvarðanir í leiknum sem hefðu farið gegn svissneska liðinu, en það hafi ekki verið rætt neitt um það.

Leikur Svisslands og Norður-Írlands byrjar kl 17:00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×