Innlent

Tæma skúffur á lokametrunum

Sveinn Arnarsson skrifar
Hluti ráðherraliðs ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar við eldhúsdagsumræður á Alþingi í haust.
Hluti ráðherraliðs ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar við eldhúsdagsumræður á Alþingi í haust. vísir/ernir
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa varið að minnsta kosti tæpum átta milljónum króna af svokölluðu skúffufé sínu eftir að ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar var slitið um miðjan september.

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur úthlutað mestu, á þessu tímabili, eða rúmum þremur milljónum króna.

Fréttablaðið sendi fyrirspurn til allra ráðuneyta um nýtingu ráðherra á svokölluðu skúffufé, frá þeim tíma sem ríkisstjórnarsamstarfi var slitið og ráðherrar urðu því ráðherrar í starfsstjórn án meirihluta á þingi.

Fimm af ráðherrunum ellefu höfðu nýtt fjármagn úr þessum potti sínum í ráðuneyti en ráðherrar ákveða eftir geðþótta hvernig þessum peningum er varið.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.vísir/vilhelm
Sigríður Á. Andersen, Bjarni Benediktsson og Guðlaugur Þór Þórðarson, ráðherrar Sjálfstæðisflokks, hafa ekki útdeilt neinu fé á þessu tímabili sem um er rætt. Enn fremur hafa Sigríður Á. Andersen Guðlaugur Þór Þórðarson tekið þá ákvörðun að snerta ekki þetta fé í sinni ráðherratíð og mun því það fé sem henni hefur verið úthlutað renna aftur í ríkissjóð um áramót.

Guðlaugur Þór Þórðarson segir þurfa skýran ramma um þennan fjárlagalið hvers ráðherra.

„Ég taldi það ekki rétta ákvörðun að nýta fé sem þetta þegar vitað var að stjórnin væri fallin og vitað væri að flokkarnir væru á leið í kosningabaráttu. Þegar ég var í heilbrigðisráðuneytinu hafði ég nefnd utan um þetta sem fór í gegnum umsóknir og hafði þetta í föstum skorðum,“ segir Guðlaugur Þór.

Jón Ólafsson siðfræðingur segir úthlutanir sem þessar þurfa að vera uppi á borðum.

„Svona ákvarðanir sem byggðar eru á geðþótta ráðherra og án skýringa, ættu auðvitað að vera list­aðar upp á síðum ráðuneytis, hver einasta fjárveiting. Þá væri hægt að glöggva sig betur á þeim. Það hefur líka sýnt sig að því meira sem gegnsæið er, því lægri upphæðum er varið af almannafé í svona hluti. Því hlýtur lykilorðið að vera gegnsæi og auðvelt aðgengi að þessum upplýsingum,“ segir Jón Ólafsson. 

Nýting ráðherra á skúffufé:

Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, 3.100.000 krónur

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, 2.470.000 krónur

Óttarr Proppé, heilbrigðisráðherra, 1.500.000

Benendikt Jóhannesson, fjármálaráðherra, 800.000 krónur

Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, 50.000

Ekki bárust svör frá Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra, og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×