Lífið

Mótar líkamann eins og leir

Þórdís Lilja Gunnarsdóttir skrifar
Aníta Rós Aradóttir er Íslandsmeistari í módelfitness.
Aníta Rós Aradóttir er Íslandsmeistari í módelfitness. MYND/JANEX BELAJEVS
Hvergerðingurinn Aníta Rós Aradóttir er Íslandsmeistari í módelfitness. Hún segir enn tíma til að mæta jólum af hreysti og fegurð.

„Það gefur lífi mínu lit að hreyfa mig. Ég man eftir mér níu ára, hlaupandi um allt hús með áfylltar vatnsflöskur sem ég notaði sem lóð, og ég var spriklandi í fótbolta, körfubolta og fimleikum frá blautu barnsbeini,“ segir Aníta Rós Aradóttir, Íslandsmeistari og bikarmeistari í módelfitness.

Aníta hefur þó ekki alltaf verið í toppformi.

„Þegar ég hætti í fótbolta og byrjaði í framhaldsskóla fór ég allt í einu að fitna úr hófi fram, eða um fimmtán kíló á einni önn. Þannig leið mér ekki vel og ákvað að byrja í líkamsrækt,“ segir Aníta sem heillaðist fljótt af lóðalyftingum.

„Mér fannst ótrúlega spennandi og áhugavert að sjá hvernig hægt er að móta líkamann eins og leir með lóðum. Ég stefndi því á að ná íþróttamannslegum vexti, verða sterk og öðlast trú á sjálfri mér. Mig hafði skort sjálfstraust áður en ég fór að stunda líkamsrækt en þarna fann ég sjálfstraustið eflast og fann innra með mér að ég gæti allt sem ég vildi og ætlaði mér.“

Aníta hóf lóðalyftingar árið 2010 og árið 2012 keppti hún fyrst í módelfitness.

„Mig vantaði áskorun fyrir sjálfa mig. Áskorun sem ég vissi að yrði ögrandi og krefðist mikils af mér. Ég vildi setja mér háleitt markmið sem á endanum færði mér uppskeru erfiðisins,“ segir Aníta sem varð bikarmeistari í módelfitness 2015 og Íslandsmeistari nú í vor.

„Í bæði skiptin varð ég heildarmeistari í kvennaflokki. Þá keppir maður fyrst í sínum hæðarflokki og svo keppa sigurvegarar úr öllum flokkum, þar sem ég sigraði líka,“ segir Aníta og er ekki í vafa um hvers vegna hún stóð uppi sem Íslandsmeistari.

„Ég hreppti Íslandsmeistaratitilinn vegna þess að ég lagði extra hart að mér og gaf mitt allra besta í hvern einasta dag í undirbúningsferlinu. Strax eftir mitt fyrsta keppnismót 2012 var ég staðráðin í að verða Íslands- og bikarmeistari, og það tókst níu og tíu mótum síðar. Tilfinningin var auðvitað æðisleg og ég var á bleiku skýi lengi á eftir.“

 

Aníta Rós sigurreif með Íslandsbikarinn á lofti.MYND/PÉTUR FJELDSTED
Gaman að ögra sjálfum sér

Bikarmótið í fitness fer fram í Háskólabíói næstkomandi laugardag, en það er annað stærsta fitnessmót ársins, á eftir Íslandsmótinu.

„Á laugardaginn mun ég fylgjast spennt með úr salnum þar sem ég meiddist í baki í sumar og er enn að ná mér af meiðslunum. Vonandi verð ég orðin góð fyrir næsta Íslandsmót, þar sem ég mun að sjálfsögðu reyna að verja Íslandsmeistaratitilinn,“ segir Aníta sem æfir sex sinnum í viku, einn til tvo tíma í senn, en tólf sinnum í viku nokkrum mánuðum fyrir mót.

„Módelfitness er strembið sport en að sama skapi skemmtilegt. Það er gaman að ögra sjálfum sér og alltaf sætustu sigrarnir að ná erfiðum markmiðum. Álagið er mikið, stíft mataræði sem samanstendur af færri hitaeiningum til að skera niður fitu, um leið og hvergi er slegið af æfingum. Slíkt gengur ekki of nærri líkamanum svo framarlega sem það er gert á skynsamlegan hátt,“ segir Aníta og tekur fram að módelfitness sé alls ekki fyrir alla.

„Maður þarf að vera vel andlega sterkur, hafa sterka sjálfsmynd og hausinn á réttum stað; til að takast á við mótin og það að verða venjulegur aftur eftir mót. Módelfitness gengur út á að byggja upp kvenlegan en íþróttamannslegan líkamsvöxt. Sýna þarf mismunandi vöðvamassa eftir flokkum, visst mikinn skurð, framúrskarandi sviðsframkomu og pósur sem gefa rétta mynd af líkamsforminu og eiga stóran þátt í því að geta skilað sínu allra besta á sviði,“ útskýrir Aníta um erfiða og krefjandi íþróttagrein.

Fram undan eru jólin með öllum sínum undursamlegu freistingum. Aníta er með háskólagráðu frá Háskóla Íslands á Laugarvatni í íþrótta- og heilsufræðum og starfar sem einkaþjálfari í World Class á Selfossi. Hún gefur heilræði til að mæta jólunum af hreysti og fegurð.

„Best er að halda hollri matarrútínu fram að jólum og leyfa sér svo lystisemdir jólanna í hófi. Sleppa öllum öfgum en hreyfa sig reglulega og borða holla og hreina fæðu. Nú eru sex vikur til jóla og klárlega nægur tími til að ná árangri, enda raunhæft að léttast um hálft til eitt kíló á viku. Það munar um minna,“ segir Aníta og er löngu komin yfir togstreitu vegna fitandi freistinga.

„Það er erfiðast fyrir fólk að láta af gömlum vana, eins og súkkulaðistykki eftir matinn. Hreyfing og hollt mataræði á að vera í jafn sjálfsagðri rútínu og að bursta tennur. Það tekur ekki nema einn til þrjá mánuði að tileinka sér nýjan lífsstíl og því um að gera að skipta úr súkkulaði fyrir ljúffenga skyrdós, ávöxt eða grænmeti.“

Fylgist með Anítu Rós og hennar lífsstíl á SnapChat undir nitaros og á Instagram undir anitarosfit.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×