Lífið

Kjötætur tengdar við raunveruleikann bak við máltíðina

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Ari Tómasson, Þórður Hans Baldursson og Lóa Björk Björnsdóttir eru meðal þeirra sem komu að gerð Planternative.
Ari Tómasson, Þórður Hans Baldursson og Lóa Björk Björnsdóttir eru meðal þeirra sem komu að gerð Planternative. Vísir/Ernir
„Planternative er verkefni sem byrjaði fyrir u.þ.b. ári síðan og gekk út á það að smíða hugbúnað sem skiptir út orðum sem notuð eru um dýraafurðir á internetinu fyrir eitthvað sem lýsir því sem um ræðir á réttmætari hátt. Hugbúnaðurinn virkar í flestum vöfrum og á öllum heimasíðum sem innihalda enskan texta.

Það þýðir foie gras í pain paté, happy meal yfir í sad meal og þar fram eftir götunum. Það er eiginlega best að fólk nái bara í viðbótina og prófi svo að skoða t.d. einhverjar grilluppskriftir til að skilja nákvæmlega hvað þetta gengur út á,“ segir Þórður Hans Baldursson en hann og Lóa Björk Björnsdóttir, Ari Tómasson og margir fleiri eru fólkið á bak við verkefnið.

„Tengingin frá dýrinu yfir í vöruna í matvöruversluninni er virkilega veik og tungumálið spilar þar inn í, sérstaklega á ensku. Cow yfir í beef yfir í steak myndar hugmyndafræðilega fjarlægð þar sem varan á diskinum á ekkert sameiginlegt með dýrinu og þar með litlar líkur á að neytandinn fái samviskubit,“ segir Ari.

Hópur af hæfileikaríkum vegönum

Hvaða fólk er á bak við þetta?

„Það myndaðist alveg brjálæðislega gott teymi í kringum þetta verkefni. Næstum eins og allt hæfileikaríkasta fólk landsins sé vegan. Hönnun og branding var t.d. mestmegnis í höndum Gabríels Bachmann og svo kom Svala Hjörleifsdóttir inn í þá vinnu á seinni stigum, Tómas Ken Shimomura-Magnússon forritaði m.a. hugbúnaðinn með mér en mesta vinnan fólst samt í efnisvinnu, þ.e. a.s. að finna þýðingar á orðunum sem við vildum skipta út.

Þar voru betri en engin þau Lóa, Guðrún Sóley Gestsdóttir, Ari Tómasson, Ýmir Grönvold, Sólveig Einarsdóttir, Kata Jóhannesdóttir, Marinella Arnórsdóttir, Gígja Sara Björnsson, Matthías Karl Karlsson, Guðrún Ýr Eyfjörð, Jón Pétur Þorsteinsson og Ophelié Karoni. Við fengum svo sérlega rágjöf frá Gunnari Jörgen Viggóssyni um ýmis mál,“ segir Þórður.

„Þetta er bara alls konar fólk sem á það sameiginlegt að vera vegan. Ég kem bara stundum með mitt innlegg sem manneskja sem hefur skoðanir og er í listnámi. Vinir okkar hjálpuðu til við að þýða orðin í matarboðum,“ bætir Lóa við.

 

Orðið „kjúklingakjöt“ upphafið

Hvaðan kemur þessi hugmynd?

„Hugmyndin spratt út frá hugleiðingum um orðanotkun og hugrenningatengsl. Áður en ég varð vegan var ég á veitingahúsi í borginni og það stakk mig þegar ég renndi yfir matseðilinn að í stað þess að boðið væri upp á kjúkling var boðið upp á kjúklingakjöt. Ég man að þessi ofurlitla breyting á orðalagi gerði það verkum að mig langaði ekki að panta neinn af þessum réttum. Breytti hugrenningatengslunum úr girnilega, tilbúna réttinum yfir í bleika, vakúmpakkaða kjötslímið úr kjötkælinum. Þannig að ég pantaði eitthvað annað.

Seinna þegar ég fór að spá í veganisma og þeim aðferðum sem við sem aðhyllumst hann notum til þess að reyna að snúa öðrum rifjaðist þessi pæling upp og kveikti hugmyndin að planternative. Við erum nefnilega svo gjörn á að detta í einhverja „holier than thou“ orðræðu sem að mínu mati er ekki endilega alltaf málstaðnum til framdráttar. Þess vegna held ég að tól sem byggir á húmor í bland við hneykslun og óþægindi gæti verið öflugra en eldræða úr predikunarstólnum,“ segir Þórður. „Skammir og átök valda því að fólk fer í skotgrafirnar og verji sinn lífsstíl, sem er ekki gott fyrir neinn,“ bætir Ari við en Lóa er ekki endilega á sama máli:

„Ég fæ reyndar ekki nóg af „holier than thou“ orðræðu. Þegar maður brennur fyrir einhverju þá er auðvelt að missa sig. Og upplifa sig vera einu manneskjuna sem er með sannleikanum í liði og finnast allir þeir sem borða kjöt vera þrjóskir, íhaldssamir og illa innrættir.“

 

Kennslutæki til að tengja kjötætur raunveruleikanum

„Tilgangurinn var að reyna að skapa eins konar vegan kennslutæki sem hefði nógu mikið afþreyingargildi og væri nógu áhugavert til þess að fólk sem væri ekki vegan myndi nenna að tékka á því. Ef það mistekst er planið að fara í skjóli nætur og hlaða þessu niður á allar tölvur sem við komumst í án þess að nokkur taki eftir því,“ segir Þórður aðspurður hvert markmiðið þeirra sé.

„Fólk sem borðar kjöt býr í svo aftengdum raunveruleika. Eins og maturinn þinn sé ekki lík af dýri, heldur bara einhver óskilgreindur bragðgóður hlutur og það myndar ekki hugrenningatengslin á milli matarins og dýrsins. Nema náttúrulega einhverjar sjúkar veiðimannatýpur sem skjóta dýrið sjálfar. Það er annar handleggur. Tilgangurinn er að skapa þessi hugrenningatengsl hjá fólki sem leiðir ekki hugann að þessu í sínu daglega amstri,“ svarar Lóa og bætir við: „Draumur minn er að það verði til skynsamleg umræða um dýra­afurðalausan lífsstíl. Fólki finnst þetta enn þá svo róttæk ákvörðun að kjósa þannig mataræði en það sem mér þykir mun róttækara er að ákveða að nokkur dýr þurfi að deyja bara svo að þú getir farið í gegnum daginn þinn.“

Á planternative.com má bæði nálgast vafraviðbótina sem og meiri upplýsingar um verkefnið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×