Lífið

Nökkvi slasaði pabba sinn á fótboltamóti

Benedikt Bóas skrifar
Feðgarnir Nökkvi Fjalar og Orri Páll voru glæsilegir sem fyrr – þrátt fyrir fatlann.
Feðgarnir Nökkvi Fjalar og Orri Páll voru glæsilegir sem fyrr – þrátt fyrir fatlann. Fréttablaðið/Vilhelm
Orri Páll Ormarsson, blaðamaður og rithöfundur, mætti í útgáfuhóf vegna nýrrar bókar sinnar, ævisögu Gunnars Birgissonar, í fatla. Orri slasaðist á fjölmiðlamótinu í fótbolta síðastliðinn laugardag þegar hann reyndi að ná boltanum af syni sínum, Nökkva Fjalari, sem er einn af forsprökkum Áttunnar. Ekki vildi betur til en að Orri var aðeins of seinn, flæktist einhvern veginn í löppunum á Nökkva og steinlá.

„Mér tókst að slíta liðband í öxlinni en það hefði getað verið verra sögðu sérfræðingarnir. Viðbeinið stóð þarna eitthvað út í loftið. Ég þarf ekki að fara í aðgerð en verð í fatla í einhverjar vikur,“ segir Orri.

Mikið fjölmenni var í hófinu og var mikið hlegið og mikið brosað enda Orri annálaður gleðigjafi. Hann segir að Nökkvi eigi alveg heimboð áfram í sunnudagslærið.

„Þetta skrifast alfarið á mig. Ég hljóp einhvern veginn aftan á hann. Ég var aðeins of seinn og flæktist í honum og hann steinlá líka. Ég get ekki bent á nokkurn annan nema kannski Kristófer, kokkinn hér uppi í Morgunblaði. Hann er alltaf með svo helvíti góðan mat að það er farið að hægjast á manni,“ segir hann. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×