Lífið

Sýndi beint frá fæðingu hvolpanna á Snapchat

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Þegar fór að líða að lokasprettinum fékk ég nokkur skilaboð um hvort fólk mætti fylgjast með fæðingunni. Þannig að á endanum ákvað ég bara að hafa það opið fyrir alla að sjá. Fæðingar hjá hundum geta verið svo misjafnar og ef það hefði eitthvað komið uppá er frábært að fólk átti sig á að þetta er ekki dans á rósum,“ segir hundaræktandinn Erna Christiansen. Hún sýndi beint frá því á Snapchat þegar tíkin hennar Natía, af Russian Toy-tegund, eignaðist fjóra hvolpa í dag.

„Ég hef svaka tilfinningu fyrir hundunum mínum. Þeir hafa hjálpað mér mjög mikið í gegnum andlega erfiðleika. Að sjá svona fæðingu og fylgjast með hvolpunum vaxa er ólýsanlegt,“ segir Erna, aðspurð um tilfinninguna að sjá litla hvolpa koma í heiminn, en seinasti hvolpurinn fæddist nú rétt fyrir kvöldmatarleyti.

Nokkur snöpp frá Ernu í dag.
Til hamingju með barnabörnin

Einungis eru tuttugu Russian Toy-hundar á landinu að sögn Ernu, en hún er einnig stoltur eigandi rakkans Leó, sem er faðir hvolpanna.

„Ég átti mitt fyrsta got árið 2016 og féll þá algjörlega fyrir hundaræktun. Ég fékk ræktunarnafnið mitt samþykkt þann 13. janúar á þessu ári hjá Hundaræktunarfélagi Íslands,“ segir Erna, sem tók sjálf á móti Leó og Natíu.

„Það var í fyrsta sinn sem ég gerði þetta sjálf. Svo hef ég einnig horft á nokkrar hvolpafæðingar,“ segir Erna, sem opnaði nýverið aðgang á Snapchat undir nafninu ernachristians.

Erna er mikill hundavinur og flytur inn hunda af tegundinni Russian Toy.
„Ég hef verið að leika mér aðeins á Snapchat og hafa það opið. Það urðu margir spenntir þegar ég sagði að tíkin væri hvolpafull og ég er búin að vera að setja inn helling af myndum af henni. Það eru ekki nema 500 manns að fylgja mér, þar sem ég er nýbúin að stofna aðgang, en viðbrögðin við beinu útsendingunni af fæðingunni hafa verið æðisleg. Það hrúgast inn skilaboðin og allir að óska mér til hamingju með barnabörnin,“ segir Erna í sæluvímu eftir langan dag og kvöld.

En hvað verður svo um hvolpana fjóra sem fæddust í dag?



„Ég reikna með að selja þá á gott heimili. Það gæti vel verið að ég haldi einum fyrir mig og verður það skemmtileg viðbót í hundahópinn.“

Hægt er að smella hér til að fylgja Ernu á Snapchat. Og hér til að skoða Facebook-síðu hennar.


 

 

 

Hvolparnir fjórir sem fæddust í dag.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×