Innlent

Kosningunni lýkur á sunnudaginn

Kristín Clausen skrifar
Meðal hugmynda er stór klukka við Mathöllina á Hlemmi
Meðal hugmynda er stór klukka við Mathöllina á Hlemmi Vísir/eyþór
Ávaxtatré, stór klukka á Hlemm, dorgpallur og parkour-útivistarsvæði eru meðal þeirra 220 verkefna sem kosið er á milli í hverfa­kosningunni „Hverfið mitt“.

Kosningin, sem er rafræn, stendur yfir til sunnudagsins 19. nóvember næstkomandi. Alls eru 450 milljónir í pottinum en þeim hefur verið skipt á milli hverfa eftir íbúafjölda. Jón Halldór Jónasson, upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar, er ánægður með kosningaþátttökuna. Síðdegis í gær var hún um 7,5 prósent. Það er að sögn Jóns Halldórs nokkuð betri þátttaka en á sama tíma í fyrra. Hann býst fastlega við að nýtt met verði sett í ár.



Dýrasta verkefnið sem hlaut kosningu á síðasta ári var vatnsrennibraut í sundlaug Grafarvogs. Í ár er dýrasta verkefnahugmyndin einnig í Grafarvoginum en nú stendur hverfis­búum til boða að bæta vaðlaug við sundlaugina. Áætlaður kostnaður eru 42 milljónir. Atkvæðagreiðslan er leynileg og viður­kennir Jón Halldór að margir bíði spenntir eftir því að sjá hvaða verkefni verða valin. Þau munu koma til framkvæmda árið 2018. Kosningin fer fram á síðunni hverfidmitt.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×