Innlent

Rjúpnaskyttur beðnar að vara sig á veðrinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Það er betra fyrir rjúpnaskyttur að búa sig vel í dag.
Það er betra fyrir rjúpnaskyttur að búa sig vel í dag. Vísir/Vilhelm
Veðurstofan varar rjúpnaskyttur, sem eiga leið um Austurland að Glettingi og Austfirði, við hvassviðri, éljum og vindhviðum sem gætu farið yfir 35m/s. Það geti verið varasamt að ferðast í gegnum þá vindstrengi.

Færð gæti spillst á fjallvegum, ekki síst á Austurlandi, og biður Veðurstofan þá sem verða á ferðinni á heiðum og fjöllum, eins og rjúpnaskyttur, að taka til greina að það getur orðið hvasst og blint í éljum.

Gul viðvörun er í gildi á fyrrnefndum tveimur svæðum sem og á Suðausturlandi. Þar er búist við norðvestan 15 til 23 m/s og verður hvassast austan Öræfa. Vindhviður við fjöll gætu þannig farið yfir 35 m/s.

Þó verður mun hægari vindur í öðrum landshlutum, stöku él með vesturströndinni en bjartviðri sunnanlands. Hiti nálægt frostmarki við ströndina en frost 2 til 7 stig inn til landsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga



Á laugardag:


Norðvestan 3-8 m/s, en norðan 8-13 austast á landinu. Víða bjartviðri en él við norðurströndina. Frost 0 til 8 stig, mest inn til landsins. 

Á sunnudag:

Norðaustan 3-8 en austan 8-13 syðst á landinu. Léttskýjað sunnan heiða, en dálítil él með norður- og austurströndinni. Áfram kalt í veðri. 

Á mánudag:

Norðlæg eða breytilega átt 5-13 m/s, hvassast austast. Stöku él við sjávarsíðuna norðanlands en bjart fyrir sunnan. Frost 0 til 8 stig, kaldast inn til landsins. 

Á þriðjudag:

Gengur í norðan 10-18 norðan og austanlands, hvassast á annesjum, en 5-10 sunnantil. Éljagangur og síðar dálítil snjókoma fyrir norðan en léttskýjað syðra. Hiti breytist lítið. 

Á miðvikudag og fimmtudag:

Útlit fyrir ákveðna norðaustan átt með snjókomu um landið norðan- og austanvert. En léttskýjað sunnan- og vestanlands. Hiti nálægt frostmarki við ströndina en vægt frost inn til landsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×