Lífið

Stjörnufans í brúðkaupi Serenu Williams og Alexis Ohanian

Atli Ísleifsson skrifar
Þau Serena Williams og Alexis Ohanian trúlofuðust í desember á síðasta ári.
Þau Serena Williams og Alexis Ohanian trúlofuðust í desember á síðasta ári. Vísir/afp
Bandaríska tennisstjarnan Serena Williams og Alexis Ohanian, stofnandi Reddit, gengu í hjónaband í New Orleans í gær.

Þema brúðkaupsins var Fríða og dýrið og voru gestirnir í kringum tvö hundruð talsins. Á gestalistanum voru stórstjörnur á borð við Beyonce, Kim Kardashian og Eva Longoria.

Veislan var haldin í nútímalistasafni borgarinnar (Contemporary Arts Museum) og var svæðið í kringum safnið girt af.

Á meðal annarra gesta voru danska tennisstjarnan Caroline Wozniacki, söngkonurnar Ciara og Kelly Rowland, sjónvarpsstjarnan La La Anthony og Anna Wintour, ritstjóri Vogue.

Talið er að kostnaðurinn við brúðkaupið hafi numið rúmlega einni milljón Bandaríkjadala. Voru gestir beðnir um að taka ekki síma sína með þar sem samið hafði verið við Vogue um birtingu mynda úr brúðkaupinu.

Þau Williams og Ohanian trúlofuðust í desember á síðasta ári eftir að hafa verið saman í fimmtán mánuði. Þau eignuðust sitt fyrsta barn, Alexis Olympia, fyrir tveimur mánuðum síðan.

Veislan var haldin í nútímalistasafni New Orleans (Contemporary Arts Museum) og var svæðið í kringum safnið girt af.Vísir/AFP

Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×