Innlent

Fagna opinni umræðu um kynferðislega áreitni

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Umræða um kynferðislega áreitni og misbeitingu valds innan listaheimsins hefur verið áberandi síðustu misseri.
Umræða um kynferðislega áreitni og misbeitingu valds innan listaheimsins hefur verið áberandi síðustu misseri. Vísir/GVA

Fulltrúar 12 íslenskra menningarstofnana og fagfélaga hittust á fundi í dag þar sem þau ræddu kynferðislega áreitni, ofbeldi og misbeitingu á valdi í sviðslistum og í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaði á Íslandi.

Þau sem áttu fulltrúa á fundinum voru Félag íslenskra leikara, Félag leikstjóra á Íslandi, Félag leikskálda og handritshöfunda, Bandalag íslenskra listamanna, Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur í Borgarleikhúsi, Menningarfélag Akureyrar, Íslenska Óperan, Sjálfstæðu leikhúsin, Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Samtök kvikmyndaleikstjóra og RÚV. 

„Fundurinn fagnar opinni umræðu og hvetur til óháðrar og faglegrar úttektar á vegum Mennta – og menningarmálaráðherra og Félags – og jafnréttismálaráðherra á umfangi og birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni, ofbeldis og misbeitingar á valdi í sviðslistum og í kvikmynda – og sjónvarpsiðnaði á Íslandi,“ segir í tilkynningu sem Félag íslenskra leikara sendi fyrir hönd hópsins.

Hundruð kvenna hafa stigið fram á síðustu vikum og sagt frá áreitni, kynferðislegu ofbeldi og misbeitingu valds innan skemmtanaiðnaðarins í Hollywood og víðar um heim. Í síðustu viku stigu tæplega 600 sænskar leikkonur fram og sögðu frá því að samstarfsmenn eða yfirmenn þeirra hefðu beitt þær kynferðislegri áreitni eða grófu ofbeldi. 

Eftir viðtöl blaðamanns við núverandi og fyrrverandi leikhússtjóra hér á landi er ljóst að fáar tilkynningar koma inn á þeirra borð um kynferðislega áreitni, kynferðisofbeldi eða misbeitingu valds innan leikhúsanna.

Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, segir rannsókn innan leiklistarinnar á áreitni í algjörum forgangi.

„Það er náttúrulega ólíðandi, til að mynda í þessu umhverfi sem að töluverðu leyti er rekið með styrkjum eða almannafé, að áreitni og valdamisvægi eins og þarna er lýst líðist,“ sagði Þorsteinn í samtali við Vísi í dag.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×