Enski boltinn

Mourinho skaut á stuðningsmenn í leikskránni: „Þeir eru 75.000 og hann er einn“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Uss!
Uss! skjáskot
Matthew Le Tissier, fyrrverandi landsliðsmaður Englands í fótbolta, segir að José Mourinho sé ekki að velja sér réttan slag að ætla að berjast við stuðningsmenn Manchester United.

Mourinho, sem sendi stuðningsmönnum pillu eftir sigurinn á Tottenham, gat ekki hamið sig um að senda aðra pillu í leikskránni fyrir leikinn á móti Benfica í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

„Ég vona að þið njótið leiksins og sum hver njóti hans meira en þið gerðuð á móti Tottenham,“ sagði Mourinho en baulað var þegar Marcus Rashford fór af velli gegn Tottenham en Anthony Martial, sem svo skoraði sigurmarkið, kom inn á.

„United byrjaði tímabilið virkilega vel og var að skora fjögur mörk í leik  reglulega. Það var þegar Paul Pogba var í liðinu og kannski saknar United hans meira en fólk áttar sig á,“ sagði Le Tissier í þættinum The Debate á Sky Sports í gærkvöldi.

„José er líklega búinn að átta sig á því og þess vegna er hann búinn að breyta leikstíl liðsins. Nú er José bara að reyna að ná í sigra þangað til Pogba kemur aftur.“

Aðspurður hvort Mourinho sé að gera rétt með því að pirra stuðningsmennina segir Le Tissier svo ekki vera.

„Þetta er rangt hjá honum. Hann á ekki að skjóta á þá í leikskránni. Þetta er slagur sem þú getur ekki unnið. Það eru 75.000 stuðningsmenn á vellinum en hann er einn. Hann getur sagt hvað sem hann vill í leikskránni en hann verður að velja orustur sínar betur,“ segir Matt Le Tissier.


Tengdar fréttir

United komið áfram í 16-liða úrslit

Manchester United er komið áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir 2-0 sigur á Benfica á Old Trafford í A-riðli í kvöld. United hefur unnið alla leiki sína í riðlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×