Enski boltinn

Finnst eiga að reka þann sem ákvað að selja Matic

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nemanja Matic.
Nemanja Matic. Vísir/Getty
Philip Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og enska landsliðsins, er harðorður þegar kemur að þeirri ákvörðun Chelsea um að selja Serbann Nemanja Matic í sumar.

Englandsmeistarar Chelsea seldu Nemanja Matic til Manchester United  fyrir tímabilið en hann og N'Golo Kanté náðu frábærlega saman á miðju Chelsea á síðasta tímabili. Fyrir vikið vann Chelsea sannfærandi sigur í ensku úrvalsdeildinni.

Chelsea fékk á sig þrjú mörk í báðum leikjunum á móti Roma í Meistaradeildinni og tapaði seinni leiknum 3-0 í Róm í gær.

„Þetta er ein lélegasta ákvörðunin sem ég hef séð tekna í ensku úrvalsdeildinni. Það á reka þann sem tók ákvörðunina um að selja Matic,“ sagði Philip Neville í viðtali við BBC.

„Með þá Matic og Kanté fyrir framan vörnina þína þá varstu með  í þínu liði tvo langbestu miðjumennina í ensku úrvalsdeildinni,“ sagði Philip Neville.

Manchester United er með fjórum stigum meira en Chelsea eftir tíu umferðir.

„Ég hefði aldrei hleypt honum út úr byggingunni. Ég hefði hlekkjað hann við hurðina á æfingasvæðinu og sagt við hann að hann væri ekki að fara neitt,“ sagði Neville.

Nemanja Matic hefur þétt miðjuna hjá Manchester United og það er allt annað að sjá liðið í vetur en í fyrra. Hvort það sé allt honum að þakka er ekki vitað en innkoma hans hefur vissulega auðveldað knattspyrnustjóranum Jose Mourinho starfið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×