Jói Berg lagði upp sigurmark Burnley

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson.
Jóhann Berg Guðmundsson. Vísir/Getty
Jóhann Berg Guðmundsson lagði upp sigurmark Burnley gegn Southampton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Leikurinn hafði verið frekar rólegur og hafði Burnley ekki átt skot á markið þar til fyrirgjöf Jóhanns Berg rataði á kollinn á varamanninum Sam Vokes á 81. mínútu leiksins.

Með sigrinum fer Burnley upp í sjötta sæti deildarinnar og jafnar Arsenal og Chelsea að stigum.

Nýliðar Brighton sóttu þrjú stig til Wales með 0-1 sigri á Swansea. Glenn Murray skoraði sigurmarkið á 29. mínútu eftir fyrirgjöf frá Anthony Knockaert fór af lærinu á Murray og í netið.

Tíu menn Huddersfield sigruðu West Bromwich Albion á heimavelli. Rajiv van La Parra kom heimamönnum yfir rétt fyrir leikhlé með frábæru skoti. 

Christopher Schindler fékk að líta sitt annað gula spjald á 57. mínútu eftir seina tæklingu á Ahmed Hegazi.

Steve Cook tryggði Bournemouth sigur á Newcastle með sigurmarki í uppbótartíma eftir hornspyrnu. Gestirnir höfðu verið sterkari aðilinn og sóttu sigurmarkið verðskuldað.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira