Körfubolti

Framlenging: Ekkert að gera í Þorlákshöfn nema missa auka kílóin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Framlengingin er fastur liður í Domino's Körfuboltakvöldi þar sem farið er snöggt yfir helstu atvik liðinnar umferðar í Domino's deild karla.

Í síðasta þætti voru þeir Fannar Ólafsson og Jón Halldór Eðvaldsson í stólnum hjá Kjartani Atla.

Grindvíkingar komust í úrslitaviðureignina í fyrra og voru Jón Halldór og Fannar sammála um það að þeir gætu leikið það eftir á þessu tímabili.

En geta Tindastólsmenn skákað ríkjandi Íslands- og bikarmeisturum KR?

„Já,“ sagði Fannar örugglega. „Vegna þess að þeir eru búnir að setja í bleyjuna núna tvö ár í röð. Ég vona að Israel Martin sé búinn að finna samhæfingu. Þeir eru með 10 sterka, þetta er lið sem á hörkuséns.“

„Miðað við mannskap á Tindastóll að vinna þetta mót, en einhverra hluta vegna hef ég ekki trú á að þeir geti það,“ mótmælti Jón Halldór.

„Samhæfingin er ekki rétt þarna.“

Ragnar Ágúst Nathanaelsson hefur ollið Jóni Halldóri mestum vonbrigðum og Fannar er ósáttur með Jesse Pellot-Rosa.

„Ég vildi að hann myndi losa sig við þessi 20 pund sem hann er með utan á sér. Það er ekkert annað að gera í Þorlákshöfn. Þetta er frábær leikmaður.“

Þeir voru báðir á því að það ætti að reka Cameron Forte frá Keflavík, en Forte hafði eftir sér í viðtali að það væri vani hjá honum að hlaupa ekki til baka í vörn.

Þá sagði Jón Halldór að Fannar ætti að leggja skóna á hilluna, en hann spilar með B-liði KR.

„Drekkur ekki nógu mikla mjólk, borðar bara Coco-puffs. viltu ekki bara hætta?“

Fannar lét sér fátt um finnast og svaraði um hæl: „Jonni, hefur þú spilað heilan körfuboltaleik?“

Þessa stórskemmtilegu umræðu má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×