Körfubolti

Bikarævintýri Vestra endaði í Vesturbænum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Hermannsson gaf 13 stoðsendingar á félaga sína í KR-liðinu.
Arnór Hermannsson gaf 13 stoðsendingar á félaga sína í KR-liðinu. Vísir/Anton
Bikarmeistarar KR héldu áfram sigurgöngu sinni í bikarkeppninni í dag þegar KR vann 37 stiga sigur á Vestra, 115-78, í DHL-höllinni í Vesturbænum.

KR-ingar hafa orðið bikarmeistarar undanfarin tvö ár, komist í Höllin þrjú ár í röð og ekki tapað bikarleik síðan í febrúar 2015.

KR varð sex stigum yfir eftir fyrsta leikhluta, 27-21, en vann síðan annan leikhlutann 41-16 og gerði út um leikinn.

Brynjar Þór Björnsson skoraði 26 stig á 20 mínútum í leiknum en hann hitti meðal annars úr 7 af 8 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Brynjar þurfti bara 9 skot til þess að skora þessi 26 stig.

Jalen Jenkins var með 17 stig í leiknum, Kristófer Acox skoraði 15 stig og tók 13 fráköst, þeir Björn Kristjánsson og Sigurður Þorvaldsson voru báðir með 14 stig og Arnór Hermannsson var síðan með 13 stoðsendingar og 7 stig.

Orri Hilmarsson var síðan sjötti leikmaður KR sem skoraði meira tíu stig í leiknum en hann var með 15 stig flest í blálokin.

Nebojsa Knezevic og Andre Cornelius voru atkvæðamestir hjá Vestra með 22 stig hvor.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×