Enski boltinn

Fellaini kærði skóframleiðandann sinn

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Marouane Fellaini skorar oftar með höfðinu heldur en fótunum. Kannski er það vegna sársauka útaf skónum hans?
Marouane Fellaini skorar oftar með höfðinu heldur en fótunum. Kannski er það vegna sársauka útaf skónum hans? vísir/getty
Marouane Fellaini hefur kært íþróttavöruframleiðandann New Balance fyrir að framleiða skó sem skemmdu á honum lappirnar.

Árið 2012 skrifaði Belginn undir fjögurra ára samning við fyrirtækið, en hann hefur nú skipt yfir til Nike og samkvæmt fjölmiðlum á Englandi farið fyrir dómstóla og heimtað skaðabætur.

Fellaini sagði að skórnir hefðu valdið honum töluverðum meiðslum og hann hafi ítrekað látið framleiðandanum í ljós óánægju sína.

Lögfræðingar Fellaini bæta við kæruna að skórnir hafi valdið honum vinnutapi þar sem hann spilaði verr í skónum.

New Balance varðist kærunni með því að segja að Fellaini hafi áður lýst skónum sem „fullkomnum.“

Hvort sem skórnir hafa valdið Fellaini meiðslum eða ekki, þá er hann í miklum metum hjá knattspyrnustjóra sínum, Jose Mourinho.

„Ég verð að taka fram að Fellaini var frábær. Fyrir mig, fyrir liðsfélagana, fyrir stuðningsmennina, fyrir liðið, fyrir félagið. Hann var meiddur í nokkrar vikur, mætti á æfingu í gær [á laugardaginn] í fyrsta skipti og lagði sig allan fram fyrir liðið,“ sagði Mourinho í viðtali eftir tap Manchester United gegn Chelsea í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×