Körfubolti

Formaður KKÍ um aðstöðuleysi landsliðanna: Ríkisvaldsins að sjá til þess að þetta sé í lagi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætir Svartfjallalandi í undankeppni EM 2019 í Laugardalshöllinni á laugardaginn kemur.

Eins og oft áður hefur reynst erfitt að finna æfingatíma fyrir landsliðin okkar.

„Okkur vantaði æfingar fyrir stelpurnar í þessum glugga. Það er auðvitað erfitt að komast inn í Laugardalshöllina því það er ýmislegt annað um að vera þar. Þetta er líka æfingahús Þróttar og við getum ekki endalaust tekið æfingatíma af börnunum þar,“ sagði Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, í samtali við Bítið á Bylgjunni.

En myndu hlutirnir lagast ef Þróttur myndi fá sitt eigið íþróttahús?

„Það myndi batna til muna og þá fengjum við aðgang að húsinu fyrir æfingar. Ekki bara fyrir A-landsliðin okkar heldur líka yngri landsliðin,“ sagði Hannes.

„Þegar við fáum æfingatíma erum við algjörlega háð velvilja félaganna okkar og sveitarfélaganna. Okkur finnst alveg vera kominn tími á það, í allri þessari umræðu sem er búin að vera upp á síðkastið, að menn átti sig á þessu aðstöðuleysi fyrir landsliðin.“

Hannes segir að íslenska kvennalandsliðið þurfi að æfa hér og þar í aðdraganda leiksins gegn Svartfjallalandi.

„Núna erum við að æfa á fleiri stöðum en í Höllinni. Við erum að æfa í Kópavogi, Garðabænum, Reykjanesbæ, Akranesi og hjá KR. Ég held að A-landslið kvenna æfi á einhverjum 5-6 stöðum í þessari viku,“ sagði Hannes.

En hver er lausnin í þessu erfiða máli?

„Við þurfum að fá ríkisvaldið meira að borðinu. Það þarf að átta sig á ábyrgðinni í þessu. Þetta eru landsliðin okkar. Sveitafélögin bera ábyrgð á félagsliðunum, ef við getum orðað það þannig, og þá er það að sjálfsögðu ríkisvaldsins að sjá til þess að þessi aðstaða sé í lagi,“ sagði Hannes.

„Við erum ekkert að tala um að fá nýtt íþróttahús eða nýja höll á morgun, heldur að ríkisvaldið komi að því að hjálpa okkur.“

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×