Körfubolti

Ívar: Ekki boðlegt að landsliðin séu á vergangi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Illa hefur gengið að finna æfingatíma fyrir kvennalandsliðið í körfubolta sem mætir Svartfjallalandi í undankeppni EM 2019 á laugardaginn.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, ræddi málið í Bítinu á Bylgjunni í vikunni. Hann sagði kvennalandsliðið hefði æft á hinum ýmsu stöðum fyrir leikinn gegn Svartfellingum og það treysti á velvilja félaganna í landinu varðandi æfingatíma.

„Núna erum við að æfa á fleiri stöðum en í Höllinni. Við erum að æfa í Kópavogi, Garðabænum, Reykjanesbæ, Akranesi og hjá KR. Ég held að A-landslið kvenna æfi á einhverjum 5-6 stöðum í þessari viku,“ sagði Hannes.

Ívar Ásgrímsson, þjálfari kvennalandsliðsins í körfubolta, segir að þetta sé óviðunandi ástand.

„KKÍ hefur unnið lengi í því að fá æfingar og íþróttahúsin hjá félögunum eru þétt setin. Þau gera samt sitt besta til að landsliðin geti æft,“ sagði Ívar í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.

„Auðvitað þarf nýtt hús. Það þarf æfingahús sem landsliðin geta verið í. Það er ekki boðlegt að landsliðin séu á vergangi og geti ekki æft og ekki undirbúið sig.“

Ívar segir að það sé mikið kappsmál að íslensku landsliðin fái almennilega aðstöðu.

„Við vitum alveg hvað landsliðin okkar gefa þjóðinni. Þau hafa gefið henni mjög mikið. Þetta lífgar oft upp á lífið og tilveruna að sjá hvað við erum að ná stórum sigrum almennt í íþróttum,“ sagði Ívar.

Viðtalið við Ívar má sjá í spilaranum hér að ofan. Hér að neðan má svo hlusta á viðtalið við Hannes í Bítinu á Bylgjunni.


Tengdar fréttir

Helena: Þær eru eiginlega of kurteisar

Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta mætir Svartfjallalandi í fyrsta leiknum í undankeppni EM 2019 í Laugardalshöllinni á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×