Innlent

Áfengisgjaldið þungur baggi fyrir lítil frumkvöðlabrugghús

Sveinn Arnarsson skrifar
Framboð á innlendum bjór hefur stóraukist síðustu ár. Fréttablaðið/Ernir
Framboð á innlendum bjór hefur stóraukist síðustu ár. Fréttablaðið/Ernir
Brugghúsið Lady Brew­ery segir álagningu áfengisgjalds afar erfiða fyrir frumkvöðla sem bruggi gæðabjór í litlu magni. Þar sem bruggunin sé smá í sniðum og áfengisstyrkur bjórsins um 6,1 prósent, þurfi fyrirtækið að greiða 452 krónur á hvern lítra til hins opinbera í formi áfengisgjalds.

Ragnheiður Axel og Þórey Björk Halldórsdóttir reka frumkvöðlafyrirtækið. Þær hafa unnið að því að setja á markað vandaða vöru og er IPA-bjórinn frá þeim, „First Lady“, nú að finna á völdum öldurhúsum í Reykjavík og nágrenni.

„Bjórinn hjá okkur er að fara út úr brugghúsi á um 1.200 krónur lítrinn plús virðisaukaskattur vegna mikillar álagningar hins opinbera,“ segir Ragnheiður.

„Því kostar bjórinn okkar um 1.550 krónur að lágmarki á krám. Það er mjög erfitt fyrir lítil brugghús að bjórinn þurfi að vera svona dýr til að hann standi undir sér.“

Í framlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2018, sem bíður umræðu fram yfir kosningar, mun áfengisgjald hækka um 2,2 prósent í takt við verðlagsbreytingar ársins. Því mun krónutalan hækka á næsta ári nái þessi hækkun fram að ganga.

„Við erum ósáttar við að þetta litla fyrirtæki sem er að byrja rekstur fái þennan rosalega þunga bagga. Þetta er auðvitað auðveldara þegar um stórfyrirtæki er að ræða sem geta lagt minna á hvern kút og selt gríðarlegt magn á ársgrundvelli,“ bætir Ragnheiður við. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×