Lífið

Ögrar staðalímyndunum

Rebekka Blöndal skrifar
Thelma Björnsdóttir með fyrirsætum sínum á Pulp Fashion Week í París 2015.
Thelma Björnsdóttir með fyrirsætum sínum á Pulp Fashion Week í París 2015.
Thelma Björnsdóttir er 29 ára fatahönnuður með stórar hugsjónir. Hún stundaði nám í París og er nýflutt til Sviss. Hún er með eigið fatamerki og hyggst hanna flíkur fyrir konur í öllum stærðum.

Thelma byrjaði ung að velta fyrir sér tísku og fötum. Sem unglingur var hún þó oftast í vandræðum með fataval og að kaupa föt var hið mesta erfiði. Thelma upplifði því tískuheiminn óaðgengilegan vegna líkamsstærðar sinnar. Það var þess vegna sem hún ákvað að taka málin í sínar hendur og gerast fatahönnuður.

„Ég fann löngun til að hjálpa fólki í yfirstærð sem hefur áhuga á tísku. Hún er í raun ekki aðgengileg fyrir þennan hóp og svo er líka skortur á fjölbreytileika þegar kemur að „plus size“ fatnaði. Þetta eru mikið til einsleit föt og hugsunin er að steypa alla í sama mótið.“

Aðspurð um hugmyndafræðina sem liggur að baki fatamerkinu segist Thelma ætla að leggja sitt af mörkum til að breyta því hvernig staðalímyndir kvenna eru mótaðar af samfélaginu;

Thelma Björnsdóttir fatahönnuður.
„Mig langar að taka burtu þennan ramma sem er settur utan um „plus size“ tísku og gera tískuna aðgengilegri. Ég vil færa konum eitthvað sem þær geta prufað sig áfram með, farið út fyrir kassann. Oftast er þetta þannig að það er ein aðalfatalína og svo er „plus size“ lína. Svo er alltaf mikill munur á línunum. Ég vil eyða þessu, kynna eina línu og hafa margar stærðir í boði. Síðan má líka tala um það sem er jákvætt að gerast. Fatahönnuðurinn Christian Siriano er til dæmis núna farinn að opna línuna sína fyrir stærri stærðum og var með módel í alls konar stærðum á nýjustu tískusýningunni sinni. Það er það sem ég vil gera.“

Um eigin stíl segir Thelma hann vera nokkuð fjölbreyttan en á sama tíma vill hún ögra staðal­ímyndum með fatavali sínu og prófa eitthvað nýtt.

„Ég reyni að vera svona frekar afslöppuð eða „effortless chic“ ef ég má sletta. En ég vil líka ögra þessari pælingu sem er með konur í yfirstærð, það að þær þurfi að fela eitthvað. Ég er að reyna að brjótast út úr því og ganga í því sem mér finnst flott þó svo að það sjáist í magann á mér. Það er eins og sumar kröfur, sem settar eru á konur í yfirstærð, séu gerðar fyrir þægindi annarra. Svo að fólki líði ekki illa við að horfa á mann. Ég á til dæmis netbol sem ég ætti í raun ekki að klæðast samkvæmt þessu. Mér finnst að allar konur ættu að stíga út fyrir kassann sinn og prófa sig áfram óháð því í hvaða stærð þær eru. Dýfa tánum í óvissuna. Þú tapar ekkert á því.“

Buxur sem verða til sölu hjá Thelmu.
Thelma lærði fatahönnun í IFA Paris og sýndi útskriftarlínuna sína á Pulp Fashion Week árið 2015. Síðan þá hefur hún unnið að opnun netverslunar á heimasíðu sinni. Fyrsta flíkin sem fer í sölu verða buxur sem eru úr útskriftarlínu Thelmu.

„Mig langaði að byrja á þeim því þær fengu svo góðar undirtektir á Pulp Fashion Week í París. Ég er búin að vera að vinna í stærðarskala sem ég vil miða við en ég stefni á að byrja að selja í byrjun næsta árs. Það er hægt að skrá sig á póstlistann á heimasíðunni minni en hún er enn í vinnslu. Þar sendi ég út tilkynningu þegar netverslunin verður opnuð ef fólk hefur áhuga á henni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×