Innlent

Munu höfða skaðabótamál ef lögbanninu verður hnekkt

Höskuldur Kári Schram skrifar
Ritstjóri Stundarinnar segir að blaðið muni höfða skaðabótamál ef lögbanni á umfjöllun blaðsins og Reykjavík Media, sem byggir á gögnum innan úr Glitni, verður hnekkt. Eignarhaldsfélagið Glitnir HoldCo hefur höfðað staðfestingarmál vegna lögbannsins.

Sýslumaður höfuðborgarsvæðisins samþykkti lögbannsbeiðnina á mánudag í síðustu viku en frestur til að birta stefnu og höfða staðfestingarmál vegna bannsins rann út í dag.

Málið hefur verið afar umdeilt og margir gagnrýnt ákvörðun sýslumanns, þar á meðal Blaðamannafélag Íslands og ÖSE, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Málið var einnig rætt sérstaklega á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í síðustu viku en margir þingmenn telja að málið kalli á lagabreytingar.

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, ritstjóri Stundarinnar.
Lögbannið náði til frétta Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggðu á gögnum innan úr Glitni og fjölluðu meðal annars um fjármálagjörninga Bjarna Benediktssonar, forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokks, í aðdraganda bankahrunsins. 

Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir, annar tveggja ritstjóra Stundarinnar, furðar sig á því hversu hart sé gengið fram í málinu. 

„Í dag fáum við þessa stefnu þar sem farið er fram á þingfestingu eftir kosningar,“ segir Ingibjörg. „Þeir eru í raun að halda því til streitu að við munum ekki geta sagt fréttir af þessum málum fyrir kosningar.“ 

Þá sé lögbannskrafan nú mun víðtækari en sú krafa sem var lögð fram í síðustu viku. Þannig mega aðrir fjölmiðlar ekki birta fréttir úr þessum sömu gögnum. 

„Ég trúi því að þetta lögbann geti ekki átt rétt á sér,“ segir Ingibjörg. „Ég hugsa að þessu verði hnekkt um leið og þetta fer fyrir dómstóla. Og við ætlum þá að höfða skaðabótamál. Það er alveg ástæða til.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×