Fastir pennar

Afgangsstærð

Magnús Guðmundsson skrifar
Forsvarsmenn listamanna hafa á síðustu árum í örvinglan sinni yfir skilningsleysi samfélagsins, en þó einkum ráðamanna, kosið að vísa til listarinnar sem skapandi greina. Það er hálf leiðigjarnt hugtak yfir eitthvað viðlíka fallegt og listsköpun en tilgangurinn helgar meðalið. Markmiðið er annars vegar að víkka listhugtakið og vísa einnig til atvinnugreina á borð við hönnun, forritun og alls kyns nýrra greina. En svo ekki síður til þess að fá fólk til þess að sjá þá einföldu staðreynd að listsköpun er atvinnugrein, rétt eins og t.d. sjávarútvegur, landbúnaður og iðnaður en ólíkt þeim ágætu atvinnugreinum skapar listin úr engu. Fyrir tilstilli listamannsins verður eitthvað til þar sem ekkert var áður.

Ekkert er kannski ofsögum sagt, því það þarf alltaf að koma til manneskja með sköpunarkraft og ímyndunarafl í bland við menntun og lærða færni. Það er allt sem þarf til listrænnar verðmætasköpunar. Listin getur þannig verið óþrjótandi uppspretta verðmæta, bæði andlegra og veraldlegra, og ef eitthvað er að marka kosningabaráttuna þá er lífið saltfiskur. Veraldleg verðmæti, í vasa landsmanna, upphaf og endir alls.

Þrátt fyrir þetta heldur listin áfram að vera afgangsstærð í íslenskum stjórnmálum. Eitthvað sem er nefnt í framhjáhlaupi og hugsað um sem eitthvað sem þarf kannski að styrkja betur svona í besta falli. Samt vitum við öll að það er fyrst og fremst listin sem ber hróður lands og þjóðar vítt og breitt um veröldina og að hingað streyma ferðamenn víða að úr veröldinni eftir að hafa kynnst íslenskri list. Við vitum um öll störfin sem skapast, ársverkin sem vinnast og þannig mætti áfram telja en samt eru ófáir stjórnmálamenn alveg grínlaust spenntari fyrir því að virkja allt annað en hugaraflið.

Fæstir virðast flokkarnir bjóða upp á fastmótaða stefnu í málefnum listanna þó að hér sé á ferðinni atvinnugrein sem býr yfir þeim fágæta kosti að búa til verðmæti þar sem engin voru áður. Stefnu sem blæs til raunverulegrar sóknar í greininni með skýrri fjárfestingastefnu í kvikmyndagerð, tónlist, leiklist, myndlist, bókmenntum o.s.frv. Engu að síður eru flokkarnir margir hverjar með á sínum listum talsverðan fjölda listamanna og einstaklinga sem starfa innan greinarinnar en kannski er það bara til skrauts. Við skulum þó vona að svo sé ekki.

Við skulum frekar vonast eftir því að þessir einstaklingar, að minnsta kosti þeir sem ná inn á þing, taki sig saman þvert á flokka að loknum kosningum og leggi fram slíka stefnu. Stefnu sem horfir til tækifæranna og framtíðarinnar og metur að verðleikum það sem blómlegt listalíf getur gert fyrir samfélagið. Stefnu þar sem hlúð er að menntun listamanna og starfsaðstæðum til lengri tíma og á markvissan hátt en ekki síður lögð áhersla á að tryggja öllum aðgengi að listinni óháð efnahag, búsetu eða félagslegum aðstæðum. Það ætti í raun að vera jafn sjálfsagt og sú einfalda staðreynd að það er ekkert t í orðinu kosningar. Góðar stundir.

Leiðarinn birtist fyrst í Fréttablaðinu 25. október.






×