Innlent

Dauðadrukkinn unglingur laug að lögreglu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í kvöld og nótt.
Lögreglan hafði í nógu að snúast í kvöld og nótt. VÍSIR/VILHELM
Lögreglan hafði afskipti af ofurölvi stúlku við veitingastað á Stórhöfða skömmu fyrir klukkan eitt í nótt. Að sögn lögreglu gaf stúlkan upp kennitölu þar sem fram kom að hún væri 18 ára og skráð til heimilis á landsbyggðinni.

„Ekki var hægt að fá uppgefið heimilisfang hennar í Höfuðborginni og stóð til að vista hana í fangageymslu meðan ástand batnaði. Þá fannst greiðslukort stúlkunar og kom þá í ljós að hún var aðeins 16 ára og ekki með skráð heimilisfang í Höfuðborginni,“ segir í skeyti lögreglunnar, sem hafði samband við ættingja hennar sem kom og sótti stúlkuna á lögreglustöð.

Þá voru tveir karlmenn handteknir í miðborginni í nótt. Annar þeirra er grunaður um að hafa ráðist á dyravörð en talið er að hinn hafi framið kynferðisbrot. Báðir menn voru vistaðir í fangageymslum lögreglunnar.

Það var svo á tólfta tímanum sem tilkynnt var um umferðaróhapp á Nýbýlavegi þar sem ekið hafði verið á umferðarljós. Bifreiðin reyndist bremsulaus er ökumaðurinn ætlaði að stöðva fyrir bifreið sem á móti kom. Ökumaður og farþegi voru fluttir með sjúkrabifreið á slysadeild til aðhlynningar þar sem þeir kvörtuðu vegna eymsla. Tiltekið er í skeyti lögreglunnar að ökumaðurinn hafi sagt bifreiðna verið í viðgerð á bremsum fyrir um tveimur dögum síðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×