Innlent

Fundað stíft í æðstu stofnunum Viðreisnar í dag

Heimir Már Pétursson skrifar
Benedikt Jóhannesson sagði af sér formennsku í Viðreisn síðdegis eftir stíf fundarhöld í þingflokki og ráðgjafarráði flokksins. Benedikt segist hafa gert þetta af sjálfsdáðum vegna slæms fylgis flokksins nú fyrir kosningar og ekki hafi verið þrýst á hann að segja af sér embætti. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur tekið við formennsku og mun leiða flokkinn á lokametrum kosningabaráttunnar.

Þingflokkur Viðreisnar kom tvívegis saman í dag en á fyrra fundi hans í morgun tilkynnti Benedikt að hann ætlaði að segja af sér formennsku. Eftir að þingflokkurinn hafði fundað kom ráðgjafaráð Viðreisnar saman um klukkan hálf fimm þar sem staðan var rædd. En í ráðgjafaráðinu sitja þingmenn, stjórn flokksins, stjórnir landshlutaráða og formenn málefnanefnda.

Heimir Már Pétursson ræddi við fráfarandi formann og nýjan formann Viðreisnar í höfuðstöðvum flokksins skömmu eftir að fundi ráðgjafaráðs flokksins lauk upp úr klukkan sex í dag.Stöð2
Greinlegt var að loknum fundi ráðgjafaráðsins að miklar tilfinningar bærðust með fundarfólki en Benedikt var einn aðalhvatamanna að stofnun Viðreisnar. Hann segir að ummæli hans í kosningaþætti í Ríkissjónvarpinu á mánudagskvöld hafi ekki ráðið því að hann ákvað á endanum að segja af sér formennskunni. En þar sagði hann efnislega að ekki hefði verið ástæða til að slíta stjórnarsamstarfinu og spurði hver myndi eftir ástæðum stjórnarslitanna nú.

Benedikt baðst afsökunar á þessum ummælum sínum á Facebook síðu sinni í gær og einnig í upphafi kosningaþáttar Stöðvar 2 í gærkvöldi.

Heimir Már Pétursson ræddi við fráfarandi formann og nýjan formann Viðreisnar í höfuðstöðvum flokksins skömmu eftir að fundi ráðgjafaráðs flokksins lauk upp úr klukkan sex í dag.

Sjá má viðtalið við þau í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×