Innlent

Starfsfólk leikskóla og frístundaheimila Reykjavíkur fá eingreiðslu

Atli Ísleifsson skrifar
Heildarfjárhæð vegna greiðslu til starfsfólks leikskólanna nemur 27,3 milljónum króna.
Heildarfjárhæð vegna greiðslu til starfsfólks leikskólanna nemur 27,3 milljónum króna. vísir/vilhelm

Starfsfólk á leikskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar munu fá eingreiðslu frá borginni, en aðgerðin er liður í að mæta manneklu og efla mannauð í leikskólum.

Borgarráð samþykkti þetta á fundi sínum í gær. Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að greiðslan komi til viðbótar eingreiðslu til stjórnenda í leikskólunum sem áður hafði verið samþykkt í ráðinu ásamt öðrum bráðaaðgerðum til að mæta auknu álagi á starfsfólk. Heildarfjárhæð vegna greiðslu til starfsfólks leikskólanna nemur 27,3 milljónum króna.

Borgarráð samþykkti sömuleiðis eingreiðslu til starfsfólks frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva til viðbótar við áður samþykktar aðgerðir til að mæta manneklu og efla mannauð í frístundastarfinu. Heildarfjárhæð vegna þessa nemur 11 milljónum króna.

Í tilkynningunni segir að eingreiðslur til starfsfólks leikskóla, frístundaheimila og sértækra félagsmiðstöðva munu nema 20 þúsund krónur fyrir hvern starfsmann sem var í fullu starfi í september og koma til útborgunar 1. desember næstkomandi.

„Kostnaður vegna þeirra aðgerða sem borgarráð hefur nú samþykkt til að mæta manneklu og bæta starfsumhverfi starfsfólks leikskóla nemur í heild allt að 155 m. kr. Starfshópur um nýliðun og bætt starfsumhverfi leikskólakennara kjara- og mannauðsdeild Reykjavíkurborgar hefur aðrar tillögur aðgerðateymis til að bregðast við manneklu til umfjöllunar.

Þá hafði borgarráð samþykkt fjárveitingu til að mæta auknu álagi á starfsfólk í frístundastarfinu og efla liðsheild, s.s. með hærri efnis- og rekstrarframlögum, eingreiðslu til stjórnenda og námsleyfi fyrir starfsmenn. Kostnaður vegna þeirra aðgerða er áætlaður í heild um 32,75 m.kr. Öðrum tillögum aðgerðateymis var vísað til starfshóps um nýliðun og bætt starfsumhverfi í frístundaheimilum og sértækum félagsmiðstöðvum og hins vegar til kjara- og mannauðsdeilda Reykjavíkurborgar,“ segir í tilkynningunni.

Nánar má lesa um málið á vef Reykjavíkurborgar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira