Fótbolti

Tvö rauð og fimm mörk er Leipzig sótti þrjú stig til Dortmund

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Augustin fagnar markinu sem reyndist vera sigurmarkið í Dortmund.
Augustin fagnar markinu sem reyndist vera sigurmarkið í Dortmund. Vísir/getty
Það vantaði ekki hasarinn í leik Dortmund og RB Leipzig í þýsku deildinni í dag en leiknum lauk með 3-2 sigri gestanna og varð Leipzig um leið fyrsta liðið til að sigra Dortmund á þessu tímabili.

Pierre-Emerick Aubameyang kom heimamönnum yfir á 4. mínútu en gestirnir voru fljótir að svara. Marcel Sabitzer og Yussuf Poulsen svöruðu um hæl og leiddi RB Leipzig í hálfleik 2-1 á Signal Iduna Park.

Upphaf seinni hálfleiks var svo sannkölluð martröð fyrir heimamenn, Sokratis var vikið af velli á 47. mínútu og Jean-Kevin Augustin bætti við þriðja marki RB Leipzig stuttu síðar af vítapunktinum.

Austurríski miðjumaðurinn Stefan Ilsanker í liði gestanna hleypti spennu í þetta á ný er hann fékk tvö gul spjöld á aðeins nokkrum mínútum og tíu mínútum síðar var Aubameyang búinn að minnka muninn af vítapunktinum.

Lengra komust heimamenn ekki og þurftu því að sætta sig við 2-3 tap á heimavelli en þetta var fyrsta tap þeirra á þessu tímabili. Dortmund heldur þó toppsætinu í bili en Bæjarar eru ekki langt undan, aðeins tveimur stigum á eftir Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×