Innlent

Ellý greinir frá raunum sínum af húsnæðismarkaðnum: „Það er erfitt að segja frá þessu en svona voru aðstæður mínar

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Ellý Ármannsdóttir talaði fyrir hönd margra í svipaðri stöðu þegar hún hélt erindi á málþingi um húsnæðismál.
Ellý Ármannsdóttir talaði fyrir hönd margra í svipaðri stöðu þegar hún hélt erindi á málþingi um húsnæðismál. Ellý Ármannsdóttir
Ellý Ármannsdóttir, sem er landsmönnum að góðu kunn fyrir störf á vettvangi fjölmiðla, þurfti á tímabili að flytja í leiguherbergi elsta sonar síns með, þá, tíu ára dóttur sína. Þetta var raunveruleiki Ellýjar um skeið eftir að hún missti húsið sitt því lítið eða ekkert var um íbúðir á viðráðanlegu verði á þeim tíma.

Þetta kom fram í erindi Ellýjar á nýafstöðnu málþingi um húsnæðismál. Á þinginu greindu þær Guðrún Ásta Tryggvadóttir, grunnskólakennari, Guðný Helga Grímsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur, Hildur Hjörvar, lögfræðingur og Ellý Ármannsdóttir, fjölmiðlakona, frá raunum sínum af hinum íslenska húsnæðismarkaði en margir leita að þaki yfir höfuðið með vindinn í fanginu.

Flutti með dóttur sína í leiguherbergi sonar síns

Þegar Ellý skyldi við manninn sinn missti hún húsið. Elsti sonur Ellýjar sem var tuttugu og eins árs á þeim tíma skaut skjólshúsi fyrir móður sína og tíu ára systur. Hann sjálfur flutti til kærustunnar sinnar á meðan. Á fimmtu hæð í fjölbýlishúsi í Vesturbæ Reykjavíkur deila mæðgurnar á þeim tíma baðherbergi og eldhúsi með íbúum sem dvelja í tveimur herbergjum á sömu hæð.



Ellý Ármannsdóttir hefur reynt að gera gott úr erfiðum aðstæðum þar sem hún hefur neyðst til þess að flytjast íbúða á milli með dóttur sína á erfiðum húsnæðismarkaði.Ellý Ármannsdóttir
Stækur mygluþefur

Inni á baðherberginu var stækur mygluþefur en á málþinginu sagði Ellý frá því hvernig hún gerði leik úr því þegar mæðgurnar burstuðu tennurnar á kvöldin með því að halda fyrir nefið.

Sofa með eyrnatappa

Ellý fluttist í kjölfarið með dóttur sína úr leiguherbergi sonar síns og í íbúð með húsgögnum. Fyrir hana þurfti Ellý að greiða þrjú hundruð og sextíu þúsund krónur á mánuði. Til þess að ná að standa í skilum fyrir íbúðinni neyddist Ellý til þess að gera hlé á MBA-náminu sem hún stundar. Eftir sex mánuði í þeirri íbúð fluttist hún með dóttur sína í íbúð í Bryggjuhverfinu í Grafarvogi.

Í dag dvelur Ellý með dóttur sína í leiguherbergi íbúðar sem staðsett er fyrir ofan skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur en slíku húsnæði fylgir auðvitað talsverð hljóðmengun.

„Við dóttir mín erum með tvöfalt rúm og deilum eldhúsi með pólskri konu. Herbergið er fyrir ofan skemmtistað og dóttir mín kann lagalistann utan að. Það er spilað til klukkan fjögur og við sofum með eyrnatappa en staðsetningin er fín og við förum reglulega á kaffihús,“ segi Ellý sem missir þetta herbergi fyrsta janúar næstkomandi og neyðist því, enn á ný, til þess að leita að nýju leiguhúsnæði.

„Ég er bara byrjuð að leita,“ segir Ellý í samtali við Vísi. Hún hafi stigið fram og greint frá reynslu sinni á málþinginu vegna þess að hún tali fyrir marga: „Það eru svo margir í þessari stöðu,“ segir Ellý. 

Hún bendir á að fólk sem á í erfiðleikum á húsnæðismarkaðnum upplifi gríðarlega niðurlægingu og að þessi erfiða staða sé fólki oft mikið feimnismál.

Hér að neðan er hægt að lesa um erindi þeirra kvenna sem greindu frá raunum sínum af húsnæðismarkaðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×