Innlent

Reglur um viðbrögð við kynferðislegri áreitni í íþróttamannvirkjum Skagafjarðar

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Frá Sauðárkróki.
Frá Sauðárkróki.
Sveitarfélagið Skagafjörður hefur sett leiðbeiningar um hvernig skuli bregðast við brotlegri eða ósiðlegri hegðun í sundlaugum og öðrum íþróttamannvirkjum. Tilefnið eru tvö atvik sem komu upp í sundlaugum sveitarfélagsins.

Í leiðbeiningunum er meðal annars kveðið á um hvernig skuli bregðast við ef vart verður við mynda- eða hljóðupptökur, gægjur, áreitni eða sýniáráttu á áðurnefndum stöðum. Meta verði hverju sinni til hvaða ráðstafana skuli gripið en þar skipti máli hvort um sé að ræða gest eða starfsmann.

„Við höfum lent í því að tilraunir hafa verið gerðar til að taka myndir í búningsklefum. Í báðum tilfellum var brugðist skjótt og vel við en okkur þótti rétt að hafa skýrt verklag á blaði,“ segir Gunnar Sandholt, félagsmálastjóri Skagafjarðar.

Í kjölfar fyrra atviksins hófst vinna við gerð leiðbeininganna sem nú liggja fyrir. Sambærilegt mál kom síðan upp í sumar, meðan vinna stóð yfir, en þá var starfsmaður sundlaugar grunaður um að mynda sundlaugargesti.

„Við unnum leiðbeiningarnar alfarið innanhúss þó stefna og viðbragðsáætlun sveitarfélagsins gegn einelti, ofbeldi og kynferðislegri áreitni hafi verið höfð til hliðsjónar,“ segir Gunnar. Honum er ekki kunnugt um að önnur sveitarfélög hafi svipaðar leiðbeiningar hjá sér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×