Skoðun

Opið fyrirspurnarbréf til formanns Kennarasambands Íslands, Þórðar Hjaltested

Helgi Ingólfsson skrifar
Mér leikur forvitni á að vita um meðferð fjármuna, sem á sínum tíma eiga að hafa verið hluti af „týndu“ iðgjaldi frá Tækniskóla Íslands til Vísindasjóðs FF og FS, líklega á árunum 2010 og 2011, en eiga á óútskýrðan máta, fyrir meint mistök, að hafa „varpast“ yfir í Sjúkrasjóð KÍ, uns þeir voru endurheimtir með fé úr Félagssjóði KÍ í sept.-nóv. 2016 og lagðir inn á biðreikning FF í Íslandsbanka, að sögn formanns FF, Guðríðar Arnardóttur, í bréfi til fundarmanna sem boðaðir voru til sk. aukaaðalfundar 7. nóv 2016.

Í ljósi þeirra ummæla formanns FF langar mig sem sjóðfélagi í Sjúkrasjóði KÍ, félagi í FF og KÍ og einn eigandi að Vísindasjóði FF og FS að spyrja þig um eftirfarandi:

1. Er þér kunnugt um að fjármunir, sem á árunum 2010-11 áttu að lenda í vörslu Vísindasjóðs FF og FS, hafi lent inni í Sjúkrasjóði KÍ?

2. Ef svo er, hvenær var þér kunnugt um það og hver gerði þér kunnugt um það? 

3. Ef svo er, kom hvergi fram þér vitanlega í bókhaldi Sjúkrasjóðs KÍ á árunum 2010-16 að óeðlilega mikið kynni að vera í þeim sjóði sem næmi téðu umframfjárframlagi?

4. Formaður FF notar í ofangreindu bréfi til fundarfulltrúa orðalagið að framlaginu hafi verið „varpað“, en hefur aldrei gert grein fyrir því frekar hvað í því felst. Getur þú frætt óbreyttan félagsmann í KÍ hvað felst í „vörpun“ fjár? 

5. Hver uppgötvaði að umræddir fjármunir hefðu villst af leið? Er rétt að það hafi verið stjórn Vísindasjóðs FF/FS árið 2015, undir formennsku Erlu Elínar Hansdóttir?

6. Telur þú líklegt - í ljósi þess að þjónustusvið KÍ sat í heimildarleysi í 4 eða 5 ár á gögnum, sem tilheyrðu Vísindasjóði FF/FS, án þess að uppgötva umrædda „vörpun“ - að villan hefði nokkurn tíma uppgötvast, ef ekki hefði verið nema vegna rækilegrar athugunar gagnanna af Vísindasjóði FF/FS undir formennsku Erlu Elínar Hansdóttur? 

7. Í uppgjöri milli stjórnar KÍ og meintrar núverandi stjórnar Vísindasjóðs FF/FS frá 21. júní 2017 er viðurkennt að um beinharða fjármuni hafi verið að ræða, sem skráðir voru á Sjúkrasjóð KÍ, enda koma þeir til jöfnunar á móti öðrum beinhörðum fjármunum í uppgjörinu. Hvers vegna var fjárhæð sótt í Félagssjóð til hugsanlegrar endurgreiðslu, en ekki í Sjúkrasjóð KÍ?

Hefur einhver fjárhæð verið endurgreidd úr Sjúkrasjóði KÍ vegna allra þessara meintu mistaka?

8. Við umrædda „vörpun“ fjár inn í Sjúkrasjóð á árunum 2010-2011 hefði átt að koma í ljós, við afstemmningu og endurskoðun í lok hvers árs, að meira fé væri í Sjúkrasjóði en hefði átt að vera þar. Er þér kunnugt um að einhver hafi gert athugasemdir vegna þessa á árunum 2010-2015?

9. Formaður FF sótti skv. ofangreindu bréfi frá nóv. 2016 fé í Félagssjóð KÍ og lagði inn á biðreikning. Það vekur ýmsar spurningar um gang þess ferlis: 

9a) Með hvaða valdheimild í lögum FF eða lögum KÍ getur formaður FF skipt sér með slíkum gjörningi af fjármálum Vísindasjóðs FF/FS, sem er sjálfstæður lögaðili? Hafa ber í huga að umræddir fjárflutningar voru gerðir í nafni Vísindasjóðs FF/FS án þess að þáverandi stjórn sjóðsins fengi að koma að útreikningum eða aðgangi fjárins, og því framkvæmdir í fullkomnu heimildarleysi. Er slíkt ráðslag algengt innan KÍ og/eða aðildarfélaga þess?

9b) Var umrædd fjárhæð sótt í Félagssjóð með heimild, samþykki, vitund og vilja stjórnar KÍ, og þar með þinni sem formanns KÍ? Hvers vegna ætti Félagssjóður að vera notaður við uppgjör á bókhaldsóreiðu honum algjörlega óviðkomandi? Telur þú það eðlilega meðferð fjár í bókhaldi?

9c) Hversu há var fjárhæðin, sem lögð var út úr Félagssjóði?

(Athugist að hér gat á sínum tíma eingöngu verið um bráðabirgðaáætlun upphæðarinnar að ræða, þar sem ekki lágu fyrir endanlegir útreikningar.) Hvernig var færsluliðurinn skráður í bókhaldi Félagssjóðs? Var gerð grein fyrir fjármununum eða þessum biðreikningi á ársreikningum KI árið 2016, og ef svo, undir hvaða lið?

9d) Á hvers nafni og á hvers kennitölu var umræddur biðreikningur?

Hver/hverjir var/voru prókúruhafi/-ar að umræddum biðreikningi? 

9e) Ef stjórn KÍ var kunnugt um tilfærslu fjárins inn á biðreikning, hvers vegna sá hún ekki til þess að fjármunirnir væru endurgreiddir í hendur lögmætra og réttmætra vörsluaðila fjárins, þ.e. eigandans, Vísindasjóðs FF/FS, sem á þeim tíma heyrði undir stjórn Erlu Elínar Hansdóttur? Hvaða rétt eða valdheimild hefur formaður FF til að ráðstafa á þennan máta fjármunum, sem eru í reynd eign og ráðstöfunarfé annars lögaðila? Var það gert með samþykki stjórnar KÍ?

Telur þú eðlilega fjárumsýslu með slíkum fjármálagjörningi að sniðganga með öllu lögmæta vörsluaðila fjárins?

9f) Formaður FF hafði áður sagt að „vörpun? fjárins frá Tækniskóla 2010-11 hafi verið forritunarmistök og ekki peningalegs eðlis. Ef svo hefði verið, til hvers í ósköpunum þá að taka fé út úr Félagssjóði sem varúðarráðstöfun og leggja inn á biðreikning? Getur þú útskýrt það fyrir óbreyttum félagsmanni í KÍ? 

9g) Eru umræddir fjármunir enn á biðreikningi eða hefur þeim verið skilað? Ef svo, hvernig var fénu ráðstafað, sem og vöxtum þess? Hefur biðreikningi vegna málsins verið lokað? 

10) Í samkomulagi/uppgjöri frá 21. júní 2017 er skuld Sjúkrasjóðs KÍ við Vísindasjóð FF/FS metin á tæpar 1,2 milljónir kr. (á núvirði), en samkvæmt þeirri stjórn Vísindasjóðs FF/FS, sem uppgötvaði misfærslurnar 2015 undir formennsku Erlu Elínar Hansdóttur, nam fjárhæðin um 2,3 milljónum króna (á þávirði áranna 2010-2011). Getur þú, sem undirritandi aðili að umræddu uppgjöri, útskýrt hvernig á þessum mismun stendur og hvaða gjaldaliðir það eru, sem eiga að hafa komið til lækkunar 2,3 milljónum?

11) Ég hef á þessu ári sent stjórn Sjúkrasjóðs KÍ tvisvar fyrirspurnir vegna þessa mál og einu sinni bréf á opnum vettvangi, auk tveggja ítrekana, án þess að vera virtur svars.

Ég hef sent bréf beint á embætti þitt án þess að hafa fengið nokkurt eiginlegt svar við ofangreindum spurningum. Hvað er það í þessum spurningum, sem er svo óeðilegt eða óþægilegt að þeim fæst ekki svarað?

Með fyrirfram þökk, og ósk um skýr og greinargóð svör. Virðingarfyllst,

Helgi Ingólfsson (kt. 180757-2609),

framhaldsskólakennari og félagsmaður í KÍ.




Skoðun

Sjá meira


×