Íslenski boltinn

Guðjón Pétur: Grín að ég sé ekki í liði ársins í Pepsi-mörkunum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Guðjón Pétur er hér í leik með Valsmönnum í sumar en hann kom að ansi mörgum mörkum liðsins í sumar.
Guðjón Pétur er hér í leik með Valsmönnum í sumar en hann kom að ansi mörgum mörkum liðsins í sumar. Vísir/Anton Brink
Álftnesingurinn Guðjón Pétur Lýðsson átti frábært tímabil með Íslandsmeisturum Vals í sumar. Hann er búinn að vera lengi í bransanum og gengið í gegnum ýmislegt og fyrsti Íslandsmeistaratitill hans var því sætur.

Síðustu ár hafa ekki verið auðveld fyrir Guðjón Pétur því hann greindist með sáraristilbólgu fyrir nokkrum árum og því var tvísýnt með framhaldið í boltanum.

Barátta í tvö ár

„Er ég kom heim frá Svíþjóð þá greindist ég með þennan sjúkdóm. Það er smá vesen. Ég þurfti að berjast við það í um tvö ár og hef ekki fundið fyrir neinu síðan,“ segir Guðjón en þetta er bólga í yfirborðsslímhúð ristils sem veldur þar sárum og blæðingum. Sjúkdómurinn er langvarandi og kemur í köstum en þess á milli er sjúklingur einkennalaus. Köstin einkennast af blóðugum, slímkenndum niðurgangi með eða án magaverkja að því er fram kemur á doktor.is.

„Það hefur verið hörð vinna hjá mér að komast aftur á sama stað og ég var í boltanum fyrir veikindin og það hefur tekist. Síðustu ár hafa verið mjög góð en þetta var ekki gaman. Það þurfti mikið til að komast í gegnum þetta. Ég þurfti mikla hjálp með mataræðið á þessum tíma og það gerði gæfumuninn.“

Mataræðið gerði gæfumuninn

Þetta er sami sjúkdómur og Darren Fletcher, fyrrverandi leikmaður Man. Utd, var að glíma við en hann komst í gegnum það eins og Guðjón Pétur.

„Þetta lýsir sér þannig að maður nær ekki að stýra eigin hægðum og það er erfitt að halda mat niðri. Þar af leiðandi verður mikill næringarskortur og orkuleysi. Ég held það geti ekki margir stundað íþróttir sem eru að glíma við þetta en mér tókst það. Ég samdi við Lukku í Happ og fékk mat á hverjum einasta degi. Ég borðaði hollt og vel. Það gerði meira fyrir mig en einhver lyf sem stöðvuðu þetta á sínum tíma en mataræðið var það sem skipti máli,“ segir miðjumaðurinn en íhugaði hann á einhverjum tímapunkti að hætta í fótbolta er veikindin voru hvað verst?

Fór að huga að öðru

„Ég var aldrei á því að hætta þó svo ég fengi það frá læknunum að ég ætti að fara að huga að öðrum hlutum. Ég gerði það reyndar og fór að undirbúa aðra hluti í lífinu en fótbolta. Ég fór að smíða og stofnaði tvö fasteignafélög. Fótboltinn á samt allan minn hug og þetta er í raun fyrsta sumarið eftir veikindin sem ég gerði ekkert annað en að spila fótbolta.“

Það er uppgangur hjá Guðjóni og Valsmönnum og hann er strax orðinn spenntur fyrir komandi tímabili á Hlíðarenda.

„Vonandi gefum við í og fáum fleiri toppleikmenn og náum að gera betur í Evrópukeppni,“ segir Guðjón en var þetta hans besta tímabil í boltanum?

Guðjón Pétur Lýðsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með félögum sínum í Val.Vísir/Eyþór
Ekki ánægður með val Pepsi-markanna

„Nei. Ég hef átt mörg góð tímabil en held ég fái ekki alltaf athyglina því ég er svo mikið í stoðsendingunum og hjálparsendingunum sem leiða að marki. Ég vil meina að ég sé svolítill Iniesta. Það var ekki vitað að hann væri góður fyrr en hann var orðinn 28 ára. Markmiðið hefur alltaf verið að koma að í kringum 15-20 mörkum.

Ég held ég hafi komið að 19 mörkum í sumar og kom að 21 marki hjá Blikum á sínum tíma þannig að ég hef átt nokkur góð tímabil. Ég held ég sé mjög vanmetinn og það er grín að ég sé ekki í liði ársins í Pepsi-mörkunum en það er gott grín.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×