Skoðun

Eymdarvísitala Íslands sjaldan lægri

Valdimar Ármann skrifar
Eymdarvísitalan, sem búin er til af hagfræðingnum Arthur Okun og nefnist á ensku misery index eða economic discomfort index, er einfaldur mælikvarði yfir almenna stöðu íbúa landa (nokkurs konar lífskjör) og stöðu hagkerfisins. Vísitalan er reiknuð með því að leggja saman atvinnuleysi og verðbólgu og eftir því sem gildið á henni er lægra gefur það til kynna betri stöðu en hærra gildi bendir til verri stöðu.

Í rauninni er hægt að túlka niðurstöður vísitölunnar á nokkra vegu, til dæmis gefur hún bæði vísbendingu um lífskjör almennings í hverju landi fyrir sig, sem og efnahagslega stöðu landsins. Lítið atvinnuleysi samhliða lágri verðbólgu gefur til kynna að atvinnumöguleikar séu góðir og þær tekjur sem aflað er rýrist ekki í verðbólgu, samtímis því að vera afleiðing af góðri efnahagslegri stöðu og kröftugum hagvexti. Á hinn bóginn er hátt atvinnuleysi og há verðbólga ávísun á verri lífskjör og almenna óánægju og gefur til kynna slæma efnahagslega stöðu.

Í lok árs 2008 fór vísitalan yfir 20 sem var að mestu leyti vegna mjög hárrar verðbólgu í kjölfar veikingar krónunnar en síðan hefur vísitalan lækkað jafnt og þétt. Til samanburðar hefur vísitalan í Bandaríkjunum einu sinni farið yfir 20 en það var árið 1980 og árin 2010 til 2012 var hún á bilinu 12 til 13 en er í dag um 6. Á Íslandi er eymdarvísitalan nú rúmlega 4 og hefur sjaldan verið lægri enda er það þannig að lítið atvinnuleysi fer oft ekki saman með lágri verðbólgu.

Síðast fór vísitalan undir 5 árið 1998 en þá var atvinnuleysi og verðbólga á mjög svipuðum slóðum og í dag. Í síðustu viku kom mæling á vísitölu neysluverðs frá Hagstofu Íslands sem var heldur lægri en búist var við. Mælist ársverðbólgan nú 1,4%, en án húsnæðis mælist hins vegar 3,1% verðhjöðnun. Það er því bæði atvinnuleysi og verðbólga sem hefur verið að lækka og stuðla að lægri eymdarvísitölu en við höfum áður séð.

Eymdarvísitalan er einfaldur mælikvarði og ber að taka niðurstöðunni sem slíkri, þ.e. einföldu mati á stöðunni. Til eru endurbættar útgáfur af eymdarvísitölunni sem felast til dæmis í því að bæta við vaxtakjörum og draga síðan frá ársbreytingu í vergri landsframleiðslu á hvern íbúa. Hugmyndin er þá sú að hærri vaxtakjör bæti við eymdina ásamt háu atvinnuleysi og hárri verðbólgu en hár hagvöxtur dragi úr eymdinni. Má í því sambandi nefna að raunvextir á löngum verðtryggðum ríkisbréfum voru árið 1998 um fjögur prósent en eru í dag rúmlega tvö prósent. Einnig hefur verið sett fram að ekki eigi að jafnvigta atvinnuleysi og verðbólgu þar sem hærra atvinnuleysi hefur neikvæðari áhrif en hærri verðbólga.

En þrátt fyrir einfaldleikann má sjá á einfaldan hátt að staðan er góð á Íslandi og að almennt hafi landsmenn það gott á þann hátt að flestir hafa atvinnu og tekjurnar eru ekki rýrðar í verðbólgu. Í samanburði á eymdarvísitölunni við erlend ríki má sjá að þau sem skora verst í eymdarvísitölunni eru þau þar sem efnahagsleg óstjórn og óstöðugleiki er mestur, og þar ríkir raunveruleg eymd.

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál.




Skoðun

Sjá meira


×