Sport

Gólfið brotnaði á HM í fimleikum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bart Deurloo.
Bart Deurloo. Vísir/EPA
Óvenjuleg uppákoma varð á miðju heimsmeistaramóti í fimleikum í gær þegar mótshaldarar þurftu að taka upp gólfið í miðri keppni.

Athugasemd hollenska fimleikakappans Bart Deurloo varð til þess að allir keppendur í gólfæfingum á HM í fimleikum í Montreal í Kanada fengu að endurtaka æfingarnar sínar.

Bart Deurloo varð síðasti keppandinn á gólfi í undankeppni HM í fimleikum og hann datt í æfingu sinni.

Bart Deurloo var ekki á því að þetta hafi verið honum að kenna heldur gólfinu og gerði þjálfara sínum viðvart. Þjálfarinn kom athugasemdinni áfram til fulltrúa Alþjóðafimleikasambandsins.





Gólfið var skoðað og þar kom í ljós dauður blettur. Gólfið hafði hreinlega brotnaði undan álaginu en þarna var að klárast fjórði undanriðilinn í karlaflokki á mótinu.

Öllum keppendunum var boðið að endurtaka gólfæfingar sínar og það hafði sínar afleiðingar. Síle-maðurinn Tomas Gonzales var inn í úrslitum á gólfi en datt út eftir að menn fengu að gera gólfæfingar sínar upp á nýtt.

Hér fyrir neðan má sjá viðtal við Bart Deurloo þar sem hann talar meðal annars um þegar hann datt illa af svifránni í keppni fyrr í vikunni.  Hann talar einnig um gólfæfingarnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×