Innlent

Fráfarandi meirihlutastjórn enn sú skammlífasta

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandalagsins, og Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, borða lifur á heimili þess síðarnefnda tveimur dögum eftir að stjórn Þorsteins Pálssonar sprakk.
Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþýðubandalagsins, og Jón Baldvin Hannibalsson, formaður Alþýðuflokksins, borða lifur á heimili þess síðarnefnda tveimur dögum eftir að stjórn Þorsteins Pálssonar sprakk. Vísir/GVA
Líkt og kunnugt er verður gengið til þingkosninga eftir tæpan mánuð. Atburðarásin sem leiddi til þess að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar er einnig flestum kunn. Ríkisstjórn sú er ein sú skammlífasta sem setið hefur í lýðveldissögunni. Það er því ekki úr vegi að rifja upp nokkrar skammlífar ríkisstjórnir sem ekki náðu að sitja út heilt kjörtímabil.

Í slíkri upprifjun verður hins vegar fyrst að ákvarða við hvaða mælikvarða skuli miða. Er rétt að miða við þá dagsetningu er ríkisstjórn tók fyrst við völdum eða líta til þess tíma sem leið frá kosningum og þar til hún sprakk? Sem dæmi má nefna að samstarfs nýsköpunarstjórnar Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Sósíalista hófst í október 1944. Niðurstaða flugvallarsamningsins svokallaða í október 1946, sem fól í sér að Bandaríkjaher skyldi á brott innan sex mánaða, þýddi hins vegar að Sósíalistar sögðu sig frá samstarfinu aðeins þremur mánuðum eftir kosningarnar 1946.

Í upprifjuninni nú, þar sem stiklað verður á stóru, verður miðað við þann dag sem ráðuneyti tók við stjórn og þar til að nýtt ráðuneyti tók við. Tími í starfstjórn telur því með. Af því leiðir að fráfarandi ríkisstjórn mun sitja rúma 41 viku hið minnsta. Að auki verður einblínt á stjórnir sem hafa haft meirihluta á þingi að baki sér.

Samantektin sýnir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar yngri er enn sem komið er sú skammlífasta í lýðveldissögunni. Það veltur á því hvernig stjórnarmyndunarviðræður ganga að kosningum loknum hvort hún haldi þeim titli.

Ólafur Jóhannesson og Dóra Guðbjartsdóttir. vísir/GVA
Önnur vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar – 58 vikur og 3 dagar

Sú staða sem upp kom nú, að ríkisstjórn félli svo skömmu eftir að þing kom saman til funda, er ekki einsdæmi í Íslandssögunni. Þann 11. október 1979 var þing sett en á þeim fundi tilkynnti Ólafur Jóhannesson, þá forsætisráðherra Framsóknarflokksins, að hann hyggðist biðjast lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt.

Stjórn Ólafs samanstóð af hans eigin flokki, Alþýðuflokki og Alþýðubandalaginu. Tæri viku fyrr hafði þingflokkur Alþýðuflokksins samþykkt að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu en það hafði verið afar skrikkjótt. Efnahagsástand í landinu var slæmt og átti eftir að fara versnandi. Ekki var boðað til þingkosninga þrátt fyrir kröfu Alþýðu- og Sjálfstæðisflokks þess efnis.

„[É]g persónulega tel óforsvaranlegt að efna til kosninga um hávetur, í svartasta skammdegi að kalla. Veðurguðirnir gætu orðið svo hliðhollir að þetta gæti tekist með skaplegu móti, en þó alltaf við erfiðleika í afskekktum sveitum. En veðrátta gæti líka orðið slík að kosningar á þessum tíma væru með öllu óframkvæmanlegar, og getur það átt við um kosningaundirbúning, framboðsfundi og kosningarnar sjálfar. Slíkar kosningar gætu orðið skrípamynd þar sem fjöldi fólks væri í reynd sviptur atkvæðisrétti,“ sagði Ólafur á þingsetningarfundinum.

Það varð úr að minnihlutastjórn Alþýðuflokksins, varin falli af Sjálfstæðismönnum tók við.

Stjórnin sem sprakk í beinni – 64 vikur

Rúmum tveimur mánuðum eftir þingkosningar í apríl 1987 náðu Sjálfstæðisflokkur, Alþýðuflokkur og Framsóknarflokkur samkomulagi um að mynda ríkisstjórn undir forystu Þorsteins Pálssonar. Samstarfið var umdeilt strax í upphafi og vildu vestfirskir Alþýðuflokksmenn ekki styðja hana. Eftir átök á haustmánuðum ársins 1988 reyndist banabiti stjórnarinnar vera tillaga um lækkun matarskatts, sex prósenta gengisfellingu og 1,5 prósentustiga hækkun tekjuskatts.

„Við erum hér í afar furðulegum sjónvarpsþætti. Þessir hlutir gerast rétt áður en maður er að ganga hingað inn. Það er afar ógæfulegt og vitanlega hlýtur sú spurning að vakna hvort það traust sé til staðar sem þarf til í ríkisstjórn,“ sagði Steingrímur Hermannsson, utanríkissráðherra í stjórninni, í beinni útsendingu á Stöð 2 kvöldið 16. september 1988. Hann og fjármálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, voru þá gestir í þætti Ólafs Friðrikssonar og Helga Péturssonar og gáfu út dánarvottorð stjórnarinnar.

Ný stjórn tók við um tveimur vikum síðar. Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur, Alþýðubandalagið og Samtök um jafnrétti og félagshyggju stóðu að stjórninni. Borgaraflokkurinn gekk inn í samstarfið ári síðar.

Mótmælendur gera aðsúg að ráðherrabifreið þann 21. janúar 2009, degi eftir þingsetningu. Stjórnin var farin frá innan við viku síðar. vísir/GVA
Þingvallastjórnin – 87 vikur og 4 dagar

Geir H. Haarde, þá formaður Sjálfstæðisflokksins, og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, mynduðu ríkisstjórn 24. maí 2007. Áður höfðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gengið hönd í hönd í sextán ár. Ríkisstjórnin hélt velli með eins mann meirihluta en Sjálfstæðismenn afréðu að rétt væri að slíta stjórnarsamstarfinu.

Líkt og allir vita setti efnahagshrunið strik í það samstarf. Óánægja með ástandið var vægast sagt mikil. Þegar Alþingi kom saman til funda eftir jólafrí, í ársbyrjun 2009, safnaðist fólk saman á Austurvelli, barði búsáhöld, hrópaði slagorð og kveikti bál.

Á endanum, þann 25. janúar, dögum eftir framhald þingfunda, afréð Samfylkingin að slíta samstarfinu og efna til minnihlutasamstarfs með Vinstri grænum. Framsóknarflokkurinn varði stjórnina falli.

Minnihlutastjórnir skammlífastar stjórna

Fjórum sinnum hefur það gerst að minnihlutastjórnir hafa verið við völd. Þær hafa jafnframt verið þær skammlífustu. Minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna sat aðeins í tæpar fimmtán vikur en náði kjöri á ný í kosningunum árið 2009.

16 vikur

Stjórn Ólafs Thors, sem tók við að loknum kosningum 1949 er sú skammlífasta. Stjórnarmyndunarviðræður gengu illa og á endanum settist Sjálfstæðisflokkurinn einn í stjórn. Enginn flokkur varði stjórnina heldur ætluðu þeir að taka afstöðu til hvers máls fyrir sig.

16 vikur og 4 dagar

Eftir að stjórn Ólafs Jóhannessonar féll árið 1979 tók við minnihlutastjórn undir forsæti Benedikts Gröndal. Tíð þeirrar stjórnar lauk þegar Framsóknarflokkurinn, Alþýðubandalagið og hluti Sjálfstæðismanna mynduðu stjórn. Stjórnin var mynduð í trássi við vilja Geirs Hallgrímssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

47 vikur og 3 dagar

Árið 1958 myndaði átta manna þingflokkur Alþýðuflokksins minnihlutastjórn og fór Emil Jónsson fyrir henni. Nítján þingmenn Sjálfstæðisflokksins vörðu hana. Helsta mál stjórnarinnar var að breyta kjördæmaskipan landsins sem fram að þessu hafði verið afar hliðholl Framsóknarflokknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×