Innlent

Hörð gagnrýni á bæjarstjórn eftir óhapp

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Frá leik Þórs gegn KR.
Frá leik Þórs gegn KR. Vísir/eyþór
Unglingaráð körfuboltadeildar Þórs gagnrýnir bæjarstjórn Akureyrarbæjar harðlega í yfirlýsingu í gær.

Hættulegt óhapp varð í íþróttasal Glerárskóla á fimmtudaginn þegar körfuboltaæfingu var að ljúka.

„Stálvír er heldur uppi annarri stóru aðalkörfunni í salnum slitnaði með þeim afleiðingum að hann sveiflaðist til með veggfestingunni, bolta og járni og skall í gólfið með miklum látum enda um þungt stykki að ræða,“ segir unglingaráðið.

Iðkendur voru að ganga frá þegar óhappið varð og féll festingin niður skammt frá einum þeirra. „Það þarf ekki að spyrja að því hvernig hefði farið ef festingin hefði slegist í barn, þarna hefði getað orðið stórslys.“

Unglingaráðið kveðst hafa kvartað árangurslaust undan aðstöðunni við bæjaryfirvöld um árabil. Hefur körfuboltadeildin sótt um að fá tíma í öðrum húsum vegna ástandsins og fékkst það staðfest á fimmtudag.

Hvetur ráðið foreldra iðkenda til að láta í sér heyra enda sé aðstaðan ekki boðleg.

„Þegar öryggi barna okkar er ógnað er ekki hægt að una lengur við. Unglingaráð körfuboltadeildarinnar mun ekki senda börn og ungmenni á æfingar í Glerárskóla meðan öryggi þeirra er ekki tryggt. Af þeim sökum falla niður allar æfingar í Glerárskóla á næstunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×