Innlent

Flugvélum snúið við vegna veikra og meðvitundarlausra farþega

Samúel Karl Ólason skrifar
Allir þrír farþegarnir sem um ræðir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.
Allir þrír farþegarnir sem um ræðir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Vísir/Pjetur
Flugvél frá pólska flugfélaginu LOT var snúið við á leið frá Varsjá til Toronto í fyrrakvöld vegna veikinda farþega. Vélin var yfir Grænlandi þegar henni var snúið við og lent á Keflavíkurflugvelli vegna veikinda farþega. Hann var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Sömuleiðis þurfti að snúa flugvél sem var á leið frá Keflavíkurflugvelli til Parísar eftir að tveir farþegar urðu meðvitundarlausir.

Samkvæmt tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum fór lögregla um borð og kom í ljós að annar farþeganna var mjög ölvaður og grunur um að hann hefði innbyrt önnur efni einnig. Báðir voru fluttir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Fölsuð skilríki og stolinn farangur

Þrír einstaklingar voru handteknir fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar í vikunni. Skilríkin voru öll ítölsk og voru allir einstaklingarnir á leiðinni til Kanada þegar þeir voru stöðvaðir.

Þá urðu tveir flugfarþegar fyrir því í vikunni að öllum farangri þeirra var stolið. Skömmu síðar sást til manns bjástra eitthvað í runnum við göngustíg skammt frá flugstöðinni. Þegar grennslast var fyrir um athafnir mannsins fannst mikið af farangri í runnunum. Maðurinn hafði þá látið sig hverfa, en lögreglan afhenti eigendunum farangurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×