Innlent

Þjóðvegurinn opnar á ný

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Hringvegurinn opnar á ný við Hólmsá í kvöld og bygging bráðabirgðabrúar við Steinavötn gengur vel. Dregið hefur úr vatnavöxtum á Suðausturlandi í dag og fer verkefnum björgunarsveita því fækkandi. 

Stórt svæði lokaðist inni eftir að brúin yfir Steinavötn ónýttist og rjúfa þurfti hringveginn við Hólmsá vegna mikilla vatnavaxta undanfarna daga. Þyrlur Landhelgisgæslunnar voru notaðar til að ferja þá 150 ferðamenn sem innlyksa voru á svæðinu burt. Aftur á móti hafa u.þ.b. 70 manns sem á svæðinu búa setið fastir, en þyrlur hafa ferjað til þeirra nauðsynjar eftir þörfum.

Bóndi á Jaðri við Hrollaugsstaði kvartar þó ekki og segir íbúa hafa það ágætt. Nú hefur vegurinn við Hólmsá hins vegar verið lagfærður og innilokunin því búin í bili. Verkstjóri hjá Vegagerðinni segir að unnið hafi verið hörðum höndum í allan dag.

Hringvegurinn verður þó lokaður áfram við Steinavötn í einhverja daga. Starfsmenn Vegagerðarinnar voru við störf á Selfossi í dag þar sem þeir smíðuðu hluta af bráðabirgðabrú sem síðan verða fluttir austur. Reynir Gunnarsson, rekstarstjóri hjá Vegagerðinni á Höfn, vonar að hægt verði að opna bráðabirgðabrúna fyrir lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×