Innlent

Keyrir hringinn á rafbíl með móður sinni á níræðisaldri

Hersir Aron Ólafsson skrifar
Rafbílahalarófa hlykkjaðist út fyrir borgarmörkin í dag. Þar fylgdi fjöldi fólks tveimur Bretum sem hyggjast aka umhverfis Ísland á rafbílum. Félagarnir ætla norðurleiðina og vona að þjóðvegurinn verði kominn í lag svo þeir geti klárað hringinn í lok næstu viku.

Þeir Mark og Stuart lögðu af stað í hringferðina frá rafstöðinni við Elliðaárdal í hádeginu. Markmið þeirra er að sýna fram á hve litlum vandkvæðum það sé bundið að fara allra sinna ferða á rafbíl, jafnvel þó um langferðir sé að ræða. Bakgrunnur þeirra er á sviði endurskoðunar og rekstrar, en undanfarið hafa þeir látið umhverfismál sig miklu varða. Áhuginn jókst til muna þegar þeir óku saman hringinn um Bretland á rafbíl í fyrra og sáu hve auðvelt það raunverulega var.

Félagarnir eru hér á landi í tengslum við orkuráðstefnuna Charge Iceland sem fram fer dagana 9. og 10. október. Að henni koma m.a. opinberir aðilar og stórfyrirtæki frá ýmsum löndum og er áherslan á framtíðarmöguleika í nýtingu og markaðssetningu orku. Forsvarsmaðurinn Friðrik Larsen segir mikinn áhuga á orkuþjóðinni Íslandi og ætla ökuþórarnir að stoppa víða á leið sinni og kynna sér uppsprettur orkunnar.

Bretarnir hyggjast aka umhverfis fleiri lönd á rafbílum á næstu misserum og hafa jafnvel í hyggju að þvera heilu heimsálfurnar. Annar þeirra fer þó hvergi án þess að hafa móður sína, sem er á níræðisaldri, með sér til halds og trausts.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×