Lífið

Forsætisráðherra heldur áfram að brillera í kökuskreytingum

Nína Hjördís Þorkelsdóttir skrifar
Bjarna er margt til lista lagt.
Bjarna er margt til lista lagt. Vísir/Pjetur/Skjáskot
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra deildi myndbandi sem sýnir nýjustu afurð hans á sviði kökugerðar fyrr í dag. Kökuna bakaði Bjarni í tilefni af sex ára afmæli dóttur sinnar. 

Kakan er græn á litinn og fagurlega skreytt en punkturinn yfir i-ið er forláta tröll sem stendur á toppi hennar. Hin skrautlega kaka er einmitt innblásin af kvikmyndinni Trolls sem kom út á síðasta ári. 

„Kökumyndbönd vinna kannski ekki kosningar en það er mikilvægt að þau tapi þeim ekki. Ég vandaði mig þess vegna sérstaklega í þetta skiptið. Skreytingin er frumsamin," segir í stöðuuppfærslu sem fylgir myndbandinu.

Myndband, sem sýnir Bjarna skreyta köku af miklu listfengi, vakti geysilega athygli fyrir alþingiskosningarnar í fyrra. 

„Ég held að þetta virki, það skiptir verulegu máli að fólk tengi við stjórnmálamenn,“ sagði Andrés Jónsson almannatengill um kökuskreytingamyndbandið fræga í samtali við Vísi í fyrra

Nýja myndbandið er þó ekki „kosningamyndband" líkt og myndbandið fræga frá því í fyrra. 

„Við ætlum ekki að gera kosningamyndband núna, er það nokkuð?," segir Bjarni við dóttur sína í myndbandinu en hún brosir og svarar neitandi. 

 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×