Innlent

Mikið af heitu vatni hefur fundist á Selfossi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Borholan er staðsett við Jórutún á Selfossi rétt við þjóðveg númer eitt áður en komið er að Ölfusárbrú.
Borholan er staðsett við Jórutún á Selfossi rétt við þjóðveg númer eitt áður en komið er að Ölfusárbrú. Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Stefnt er að því að veita heitu vatni sem fundist hefur í Jórutúni á Selfossi inn á dreifikerfi á svæðinu á næstu mánuðum. Frekari prufudælingar og afkastamat fer fram á næstu vikum.

Holan sem var boruð þar er nú 867 metra djúp og ekki stendur til að bora neðar.

„Prufudæling og afkastamat á næstu vikum mun leiða það nákvæmlega í ljós, en miðað við stutta afkastamælingu eftir síðustu aðgerðir í holunni, sem fólust í síkkun á fóðringu niður í rúmlega 300 metra vonumst við eftir u.þ.b.70 C heitu vatni og 15-25 l/sek. Eftir frekari prófanir verður fyrst hægt að segja fyrir með einhverju öryggi um afkastagetu holunnar“, segir Jón Tryggvi Guðmundsson, framkvæmda- og veitustjóri sveitarfélagsins Árborgar, um afköst holunnar.

Nýja borholan hefur leitt í ljós að á svæðinu er heitt vatn í nýtanlegu magni og hitastigi.Vísir/Magnús Hlynur Hreiðarsson
Mikil ánægja er með fundinn á heita vatninu en það voru bormenn frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða sem fundu vatnið.

„Ætlunin er að reyna koma vatninu inn á dreifikerfið á næstu mánuðum. Samhliða prufudælingum og afkastamati verða tekin sýni af vatninu til efnarannsóknar og hætta á útfellingu metin verði vatninu blandað inn á dreifikerfið. Hugsanlega munum við nýta vatnið inn á afmarkaða hluta kerfisins svo ekki komi til samblöndun á vatni“, bætir Jón Tryggvi við.

Kostnaður við borunina er kominn yfir 40 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×