Innlent

Fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald vegna umfangsmikils fíkniefnamáls

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Aðgerðir lögreglu fóru meðal annars fram í Skipholti þar sem að minnsta kosti tveir voru handteknir. Sérsveitarmenn og óeinkennisklæddir lögreglumann komu að aðgerðunum.
Aðgerðir lögreglu fóru meðal annars fram í Skipholti þar sem að minnsta kosti tveir voru handteknir. Sérsveitarmenn og óeinkennisklæddir lögreglumann komu að aðgerðunum. Mynd/Stefán Pálsson
Mennirnir fjórir sem handteknir voru í Skipholti í síðasta mánuði grunaðir um fíkniefnamisferli verða færðir fyrir héraðsdóm í dag þar sem farið verður fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir þeim. Mennirnir voru handteknir í tengslum við rannsókn á umfangsmiklu fíkniefnamáli en þeir eru grunaðir um innflutning á amfetamínbasa.

„Þetta eru rúmlega 1300 millílítrar,“ segir Grímur Grímsson, yfirmaður miðlægrar deildar lögreglu við Vísi um magngreiningu á efninu. Amfetamínbasi er notaður til þess að útbúa amfetamínsúlfat en það amfetamín sem er í dreifingu er amfetamínsúlfat blandað íblöndunarefni. Grímur segir að samkvæmt þeim upplýsingum sem lögregla hefur væri hægt að búa til 9,9 kíló af amfetamíni úr þeim amfetamínbasa sem fannst í rannsókninni.

Mennirnir voru allir pólskir og á þrítugs og fertugsaldri. Einn þeirra er búsettur hér á landi en hinir þrír eru búsettir erlendis. Þeir hafa allir setið í gæsluvarðhaldi síðan 25.ágúst. Grímur segir að farið verði fram á fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir öllum fjórum mönnunum.

Fleiri voru handteknir en sleppt strax í upphafi aðgerðanna. Fleiri hafa verið yfirheyrðir í tengslum við rannsóknina. Grímur segir að rannsókn málsins miði mjög vel og sé langt komin.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×